Ég smellti nokkrum myndum í morgun á leið út á lestarstöð. Önnur sýnir götuna mína, Grampian Way. Hugguleg lítil gata, líklega nokkuð dæmigerð. Sum húsin falleg, önnur gersamlega að hruni komin. Þetta endurspeglar líklegast hugmyndafræði frelsisins, þú gerir bara það sem þér sýnist. Gott og vel en “það er hlandlykt af frelsinu” eins og ónefndur prófessor við HÍ sagði. Sá var hægrinnaðri en aðrir menn uns hann dvaldi í USA í doktorsnámi.
Jæja, ég smellti líka mynd af hraðbrautinni og lestarstöðinni minni, Savin Hill. Sú mynd endurspeglar gríðarlega áskorun sem þessi þjóð bílismans stendur frammi fyrir. Ef rýnt er í myndina má etv. sjá einmana vindmyllu ofarlega, vinstra megin. Þetta ku vera sú einna sinnar tegundar í Boston. Sjáiði umferðina kl. 6.45 að morgni. Boston er m.a.s. með skárri borgum hvað varðar samgöngur því hér er fínt lestarkerfi og bílaumferð því minni en í sambærilegum borgum.
Það er enginn hér á dísilbílum, meira að segja sumar minni rútur og sendiferðabílar eru knúnir bensíni. Andy fyllti Bensann sinn fyrir 45 dollara í gær. Hann sagði (með tárin í augunum) að það hefði kostað sig 60 dollara í sumar, en sem betur fer væri bensínverðið á niðurleið. Það virðist vera lítil eða engin hvatning í þessu þjóðfélagi að fara sparlega með eldsneyti. Hugsið ykkur hvað Bandaríkjamenn gætu skilað miklu til umhverfismála heimsins þó ekki væri nema með því að fara að nota dísilbíla sem hafa líklega um 30% betri orkunýtingu. Ég tek fram að það er gaman að spjalla við Andy um þetta, hann er algerlega sammála og mjög meðvitaður um umhverfismálin.
Kærar þakkir fyrir að láta vita af slóðinni að blogginu þínu. Alltaf gott að vita af kennurum á vísum stað. Gangi þér vel í Boston.Eirný
LikeLike