Jæja, þá er komið sunnudagskvöld hér í Boston og ég sit úti á verönd í eftirmiðdagssólinni. Það er búið að vera aldeilis ótrúlegt veður hér um helgina, skafheiður himinn og sjálfsagt 25 stiga hiti. Ég skellti mér á árlega þjóðlagahátíð hér, Boston Folk Festival – sjá http://www.bostonfolkfestival.org/. Svo vel vill til að hún er haldin á campus Boston UMass (University of Massachusetts), svona 7 mínútna göngutúr frá húsinu mínu á Grampian.
Þetta voru tveir dagar, sneisafullir af allskonar skemmtilegri tónlist, mest þjóðlagatónlist með rætur á Írlandi, Skotlandi, úr bandarísku þjóðlagahefðinni, gamalt kántrý og jafnvel frá Afríku. Þessir listamenn voru hver öðrum betri, að vísu ekki allir að spila mína uppáhaldsmúsík en þeir áttu það nú flestir sameiginlegt að flytja frábæra texta, vera fínir og jafnvel afbragðsgóðir söngvarar, flytja grípandi melódíur, vera flottir hljóðfæraleikarar og jafnvel jafnvígir á fleiri en eitt hljóðfæri. Ég læt hér fylgja með nöfn og vefslóðir nokkurra sem mér fannst betri en aðrir.
- Eileen Ivers, ótrúlega flottur fiðluleikari með ekta írska sveiflu http://www.eileenivers.com/
- Scott Ainslee, frábær gítarleikari og öðrum mönnum fróðari um blús. Sérfræðingur í goðsögninn Robert Johnson http://www.cattailmusic.com/Home/home.htm
- Jake Armeding, ekta kántrígaur, flott rödd og textar http://www.jakearmerding.com/
- Bruce Coburn, einn sá allrafrægasti á þessari hátíð, frábær gítarleikari og söngvari og lagasmiður http://www.brucecockburn.com/
- Liz Carlisle, frábær söngvari og söng eigin lög og texta. Þessi stelpa á eftir að verða fræg hér í USA og þá verður áritaði diskurinn minn með henni verðmætur! http://www.lizcarlisle.com/
- The Cottars, þetta eru fjögur ungmenni frá Noca Scotia. 16 – 20 ára gömul með rætur í skoskri þjóðlagatónlist. Þvílíkir spilarar, ótrúlega flink http://thecottars.com/
- Eliza Gilkyson, seiðandi söngkona með svakalega sterka texta. Hún var ekki sérlega hrifin af forsetanum sínum. Er frá Austin í Texas eins og hann og sagði að einhversstaðar í Texas vantaði þorpsfíflið ! http://elizagilkyson.com/
- Terence Martin, flottur söngvari með fína texta http://www.martinsongs.com/
- Red Molly, þrjár sætar stelpur sem sungu og spiluðu eins og englar, rödduðu ótrúlega flott, held að þessar eigi eftir að verða frægar! http://www.redmolly.com/
0 comments on “Þjóðlagahátíðin í Boston”