Frelsistúrinn


Ég skellti mér í göngutúr í síðdegisblíðunni í gær, þ.e. á laugardeginum 23. september. Fór í bæinn – en það hef ég varla gert frá því ég kom. Ég bý nefnilega fyrir sunnan borgarmiðjuna, tek lestina og ferðast með henni eins og moldvarpa undir borgarmiðjuna og kem upp í Cambridge sem er fyrir norðan Charles river. Í Cambridge er MIT og raunar einnig Harvard.
Hvað um það. Ég fór í frægasta göngutúrinn í Boston, hin svokallaða “Freedom Trail”. Á þessari 5 km leið frá Park Street og upp í North end eru nokkur fræg mannvirki og staðir sem vitna m.a. um mikilvægi Boston í frelsisbaráttu Bandaríkjanna.
Ég tók nokkrar myndir á þessu rölti mínu. Ekki þó endilega af þessum frægu mannvirkjum, það eru miklu betri myndir af þeim á netinu. Ég var einn á ferð og gallinn við það er að það eru engar myndir af manni sjálfum. Ég hafði ekki döngun í mér að segja við einhvern “would you take my picture” – það er jú sú hætta fyrir hendi að maður sé tekinn á orðinu og viðkomandi hlaupi burt með myndavélina. Ég gerði því nokkrar tilraunir til að taka mynd af sjálfum mér við “Massachusetts State House”. Afraksturinn má sjá hér. Vissulega staðfestir myndin að ég var á staðnum – en út frá öllum listrænum vinklum er þessi mynd alger katastrófa. Í því felst einhver dulin fegurð og því læt ég myndina fljóta með.
Þegar ég gekk niður Tremont stræti vakti athygli mína hógvært anddyri Tremont Babtistakirkjunnar sem fagnar manni með fullyrðingunni um að allt muni vel fara. Mér fannst þetta hugguleg skilaboð en þegar ég var að skoða spjaldið vatt sér að mér maður og spurði hvort ég ætti einhvern aur handa sér. Þegar ég svaraði fáu hélt hann sína leið en kallaði mig reyndar fagott. Fallega hugsað því fagott er líklega eitt erfiðasta hljóðfærið en jafnframt ákaflega hljómfagurt. Ég ætlaði að fara að segja honum að ég spilaði reyndar á harmoniku en þá var hann farinn. Ég vona að allt muni vel fara hjá þessum góða manni.

0 comments on “Frelsistúrinn

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: