Hvað í ósköpunum er hann að þvælast í Boston?


Lesendur kunna að spyrja sig hvað ég sé eiginlega að sýsla hér í landi frelsisins. Af lestri þessara litlu pistla mætti ætla að ég væri einkum að sinna einhverskonar tónlistargagnrýni – eða jafnvel skarpri þjóðfélagsrýni. Það er nú reyndar ekki svo. Ég er í rannsóknaleyfi þetta misserið sem þýðir að ég er undanþeginn föstum kennsluskyldum mínum við verkfræðideild og á að vera að sinna rannsóknum – það er jú stór hluti af starfsskyldum mínum sem dósents við Háskóla Íslands. Það verður að segjast eins og er að þær hafa setið dálítið á hakanum vegna gríðarlegra anna við kennslu. Það var því sannkölluð himnasending að vera boðið að sitja rannsóknarmisseri mitt í einu helsta musteri verkfræðiþekkingar í heimi hér, M.I.T. verkfræðiháskólanum. Ég bendi lesendum á skemmtilega heimasíðu skólans – http://www.mit.edu/ – sem breytir gersamlega um svip á hverjum degi. Það er dálítið lýsandi fyrir þann anda nýsköpunar og þróunar sem er svo sterkur hér á kampus.
En hvað um það. Til að fólk haldi ekki að ég sé hér í einhverju iðjuleysi – já og jafnvel rugli og óráðsíu – hef ég afráðið að leggja inn örlítil fréttaskot um það hvað ég er að fást við í rannsóknaleyfi mínu. Ég vil taka fram að hugtakið rannsóknaleyfi er dálítið óheppilegt. Það er alls ekki svo að maður sé á kaupi við að liggja undir feldi og láta sér detta eitthvað frumlegt í hug. Dagarnir mínir hér í Boston hafa verið þannig að ég er vaknaður um kl. 6 að morgni og kominn á skrifstofuna mína kl. 7.15. Ég sit við fram að hádegi en leyfi mér jafnan að fara í hina fínu sundlaug hér á kampus um kl. 13. Svo tekur við seinni törnin og ég er oftast kominn heim um kl. 19 !

0 comments on “Hvað í ósköpunum er hann að þvælast í Boston?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: