Af tenórum

Ég var staddur heima á fróni um helgina við kennslu. Furðulegt að endasendast heimsálfa á milli – í gær var ég á fullu í borgarösinni í Reykjavík og í morgun labbaði ég að venju út á Savin hill lestarstöðina og tók lestina í vinnuna hér í Boston. Jæja, ég ætlaði reyndar að fjalla um annað. Ég fór nefnilega á tónleika á sunnudaginn og hlustaði á Söngsveitina Fílharmoníu undir stjórn míns gamla söngfélaga Magnúsar Ragnarssonar flytja Carmina Burana. Það er augljóst að Magnús er að gera frábæra hluti með kórinn. Góður mórall á söngpöllunum og létt stemning – maður gæti vel hugsað sér að syngja undir stjórn Magnúsar! En aðalmálið var náttúrulega að minn gamli, góði og trausti vinur Einar Clausen söng tenórhlutverkið. Auðvitað stóð hann sig frábærlega og var tenórum þessa lands til mikils sóma.
Því miður var ég ekki jafn hrifinn af öðrum tenór sem ég hlustaði á í útvarpinu um helgina. Þar á ég við Egill Ólafsson í útvarpsþættinum “Geymt en ekki gleymt” laugardaginn 30. september á Rás 2 (http://www.ruv.is/). Þetta leit nú ágætlega út framan af, skemmtilegt spjall um plötu Þursaflokksins. En seint í viðtalinu (síðasti fjórðungur) er Egill að tala um hverfin í Reykjavík, ekki síst hverfin hvar hann hefur átt heima en þó einnig ýmis önnur hverfi þar sem býr dálítið annarskonar fólk að mati tenórsins. Hér er bein tilvitnun í Egil Ólafsson í téðu viðtali:
“Ekki nógu gott þegar þeir koma ofan úr fjöllunum, úr Grafarvogi, öskrandi og veinandi, soldið mikið mígandi og skítandi í bakgörðum, verst að þeir eru brjótandi flöskur………..Mér er sem ég sæi upplitið á þeim í Grafarvogi ef ég kæmi þarna, sko öskrandi og veinandi og mígandi og skítandi og brjótandi flöskur fyrir framan friðsæl íbúðarhús í Grafarvogi, ætli það yrði ekki eitthvert upplit á mönnum? Ég veit ekki. En svo kennir lífið manni það að maður þarf að temja sér umburðarlyndi og segja bara – aumingjans fólkið veit ekki betur, það kann ekki aðra mannasiði….”
Munið þið eftir vísu Flosa Ólafssonar sem byrjar svo “Birtist mér bísperrt….” ? Ætli tenórinn hafi gert mannfræðilega rannsókn á því fólki sem gengur örna sinna í bakgörðum á Grettisgötu? Ég geri raunar ráð fyrir því að gremja hans beinist að öllum þeim sem ekki eiga heima í 101 Reykjavík, enda þótt hann kjósi að úthrópa 20.000 manns í Grafarvogi. En hugsum málið aðeins. Þú býrð í úthverfi og hefur skemmt þér kvöldlangt í miðbænum. Þú ert þreyttur og langar heim í fjöllin! Hvað er það fyrsta sem þú gerir?
a) Þú ferð í leigubílaröðina í Lækjargötu.
b) Þú röltir upp á Grettisgötu og finnur þér notalegan garð til að kúka í. Labbar svo í austurveg, heim á leið í næturhúminu.
Sendið gjarnan svör – einnig má setja fram fleiri tilgátur.

0 comments on “Af tenórum

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: