Sem unglingur ól ég í brjósti von um að stunda nám við skóla í Boston. Sá skóli kennir ekki verkfræði og heitir ekki MIT. Þetta var raunar áður en ég lét mér detta í hug að leggja stund á þau fræði. Nei, hér var um að ræða frægasta jass háskóla í heimi, Berklee háskólann í Boston (http://www.berklee.edu/). Þetta var á þeim árum þegar ég nam við jassdeild FÍH og lék á búllum um kvöldin ásamt félögum mínum í þeirri ágætu hljómsveit Jassgaukum. Þá gekk maður um með býsna bólgið veski og gæddi sér á pylsum á Bæjarins bestu að loknum giggunum með snillingum eins og Guðmundi Ingólfs. Jæja, ég fór í pílagrímsferð á slóðir Berklee um daginn. Lét taka af mér kjánalega mynd við andyrið, rétt eins og steríotýpan af japanska túristanum myndi gera. Það var heilmikið líf þar fyrir utan, ungt fólk á innleið og útleið og á spjallinu – sumir að plokka gítar. Erindið mitt á þessar helgu slóðir var annars að hlýða á goðsagnapersónuna Al diMeola (http://www.aldimeola.com/) halda konsert í tónleikasalnum í Berklee. Þvílíkur snillingur. Náttúrulega Berklee nemandi eins og sumir af hinum 4 meðspilurum hans. Meola fékk því afskaplega hlýjar móttökur. Hann spilaði einkum lög af glænýjum CD sem heitir Consequence of Caos. Hann var afar rausnarlegur og spilaði í á þriðja klukkutíma. Tónleikarnir voru tærasta snilld, maður lét sér ekki detta í hug að það væri hægt að spila svona á gítar!
0 comments on “Al diMeola í Berklee”