Óþægilegar staðreyndir

Að þessu sinni skrifa ég úr 37.000 feta hæð, á leið til Íslands í örstutt helgarstopp áður en ég flýg til Boston til að ljúka rannsóknarleyfi mínu. Ég er búinn að ferðast yfir hálfan hnöttinn á sólarhring. Flaug með Virgin Atlantic frá Shanghai til London – ferðin tók 12 klukkustundir. Stofnandi VA er Richard Branson sem varð frægur er hann opnaði plötubúðir sínar Virgin Megastore. Branson leggur áherslu á afþreyingu farþega sinna og í Airbus breiðþotunni sem ég flaug með hefur hver farþegi sinn eigin LCD skjá og gríðarlegt úrval sjónvarpsþátta, tónlistar og bíómynda. Mér lánaðist nú að sofa svolítið á leiðinni, líklega eina 4 tíma, þökk sé léttu svefnlyfi sem mamma skammtaði mér áður en ég lagði af stað (takk fyrir dópið mamma :)). En það var mikill tími aflögu þar fyrir utan og ég glápti úr mér augun á hinar og þessar myndirnar. Sentinel heitir ein og The devil wears Prada önnur (nennti ekki að horfa á hana alla). En merkilegust var samt myndin hans Al Gore (An inconvenient truth). Gore kom á Klakann um daginn í tilefni af frumsýningunni. Ég veit ekki hvort margir hafa séð myndina en ég fullyrði hiklaust að hver einasti hugsandi maður á þessari jörð – með snefil af samvisku og siðferðiskennd – á að sjá þessa mynd. Stór orð en þarna er líka fjallað um stór sannindi. Það er verið að fjalla um mál sem ég hef áður nefnt í þessum pistlum mínum, hlýnandi loftslag vegna gróðurhúsaáhrifa. Mig grunar að innan fárra ára verðum við nauðbeygð til að breyta lífsháttum okkar. Ferðalög eru hluti nútíma lífshátta. Þetta segi ég úr 37.000 feta hæð, minnugur þess að nútíma flugumferð hefur áhrif í þessu sambandi. Það sást til dæmis yfir Bandaríkjunum þá þrjá daga eftir 11. september þegar flugumferð var bönnuð þar í landi. Sjaldan hefur himinninn verið jafn tær og þá og menn mældu mjög marktæka aukningu í mun á hitastigi dags og nætur þá daga sem flugbannið stóð yfir. Ætli það komi ekki að því að menn reyni að draga úr flugumferð? Þá verða annars konar farartæki fljótlega hagkvæm. Mér kemur í hug segulraflestin sem gengur á milli Shanghaiborgar og PuDong alþjóðaflugvallarins (http://en.wikipedia.org/wiki/Shanghai_Maglev_Train). Hugsið ykkur – lestin gengur í raun ekki á spori heldur er lyft frá jörðu með segulkrafti. Þetta dregur auðvitað úr mótstöðunni og lestin getur náð allt að 480 km hraða á klukkustund eða meira en helming af hraða farþegaþotu. Hún er 8 mínútur að fara þessa vegalengd (ég var klukkutíma að hossast þetta í leigubíl). Þetta er dýr tækni en hún hlýtur að vera jákvæð með tilliti til orkunýtingar og umhverfisáhrifa. Þó skiptir auðvitað máli hvernig rafmagnið sem knýr lestina er búið til.
Það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn. Það er ekki sá vísindamaður sem andmælir hlýnun jarðar og gróðurhúsaáhrifunum. Samfélag vísindamanna deilir ekki um þetta en til eru stjórmálamenn í Bandaríkjunum sem hafa hag af því að gera umfjöllun um þessi mál tortryggilega og sá fræum efasemda. Það svakalega er – eins og Gore bendir á – að áhrif hlýnandi loftslags eru þegar mjög sýnileg í hinu öfgafulla veðurfari víða um heim og augljósri bráðnun jökla. Framundan eru frekari breytingar þar sem m.a. vatnsforði þorra mannkyns er í hættu. Gore dregur upp dökka mynd í þessari heimildarkvikmynd af þróuninni og hvert siðmenning okkar stefnir að óbreyttu. En hann setur líka fram von, von sem er í því fólgin að við gerumst meðvituð um upphitun jarðar og bregðumst við. Hver og einn getur brugðist við (sjá www.climatecrisis.net) til dæmis með því að velja rafmagnsbúnað sem eyðir minna rafmagni, velja orkuhagkvæmari bíla, draga úr sóun á rafmagni og fleira. Ætli breytingin byrji ekki hjá manni sjálfum? Vill einhver kaupa glæsilegan MMC jeppa 🙂 Ég veit auðvitað að til að vera samkvæmur sjálfum mér þyrfti ég að fara með hann upp í Vöku og láta pressa hann. Ég er bara ekki alveg tilbúinn að stíga svo stórt skref strax….

0 comments on “Óþægilegar staðreyndir

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: