Þá er komið að því að segja stuttlega frá störfum mínum hér vestra og útskýra þvælinginn á mér til Shanghai. Ég tók þar þátt í alþjóðlegu þingi um verkefnastjórnun sem alþjóðleg samtök (IPMA) gangast fyrir ár hvert. Í fyrra var þetta þing í Delhi á Indlandi. Ég sótti þingið í fyrra og naut þess andlega fóðurs sem borið var fram. Hið veraldlega fóður fór ekki eins vel í mig í því ágæta landi og ég var með steinsmugu þegar ég kom heim, í fleiri daga en ég kæri mig um að rifja upp. Þingið í Shanghai nú í október var vel heppnað, en þó ekki jafn stútfullt af áhugaverðum erindum og í fyrra. Við Haukur Ingi fluttum fyrirlestur sem fjallaði um það hvernig maður getur mælt inntak fræðigreinar sem er í stöðugri þróun með því að taka einskonar skyndimyndir af fræðigreininni úr ýmsum áttum og leggja þær svo saman til að búa til heildstæða mynd. Meðfylgjandi mynd endurspeglar þessa viðleitni okkar en ég ætla ekki að þreyta lesendur á útskýringum.
Hins vegar fengum við mjög fín viðbrögð við þessum fyrirlestri okkar. Svo fín að ég tók mig til eftir ráðstefnuna og endurritaði ráðstefnugreinina – bætti nýjum og áhugaverðum vinkli í hana – og ætlunin er að senda hina nýju grein í virt alþjóðlegt tímarit í verkefnastjórnun.
0 comments on “Hvað er verkefnastjórnun?”