Ævintýri fiðludrengsins í Boston, fyrri hlutiÉg fékk góða heimsókn um helgina því félagi minn og fiðlu/gítarsnillingur Matthías Stefánsson gerði sér ferð á laugardaginn til að sækja fiðlufjöl eina sem hann hafði fest kaup á. Þetta átti að verða stutt stopp, svo stutt að landamæraverðir ráku upp stór augu þegar þeir sáu að drengurinn ætlaði til baka næsta dag og fannst ástæða til að grennslast fyrir um það mál.
Jæja, málið var nú annars það að við Matti vorum svo lúsheppnir að frétta af áhugaverðum konsert á vinsælum veitingastað uppi í Cambridge; Johnnyd’s. Þetta var Duke Robillard sem er velþekktur blúsgítaristi og Matti á m.a.s. DVD tónleikamynd með kappanum. Við vorum flottir á því og pöntuðum borð með viku fyrirvara til að eiga örugglega víst sæti. Það var tæpt að við næðum á staðinn í tæka tíð á laugardagskvöldinu, sama kvöld og Matti kom til Boston. En þetta hafðist nú allt. Við fengum okkur auðvitað safaríkar amerískar nautasteikur að borða og komum okkur svo þægilega fyrir til að hlusta á goðið.
Þeir sem voru að stilla upp á sviðinu voru nú ekkert mjög líkir Duke. Við fundum allskonar skýringar á þessu. “Hann er örugglega með fólk í því að stilla upp fyrir sig.” “Ansi heldur hann sér vel karlinn.” Svo kom hljómsveitin sér fyrir og taldi í fyrsta lagið. Frá fyrstu nótu var ljóst að það var eitthvað mikið að. Þetta var ekki sá Duke Robillard sem Matti þekkti. Hér var á ferðinni hljómsveit skipuð mönnum sem höfðu afar mikinn vilja en takmarkaða tónlistarlega getu – þekktu þó sín takmörk og gerðu alveg þokkalega það sem þeir gerðu. En þetta var ekki goðið Duke Robillard. “Hann hlýtur að eiga sér alnafna” sagði Matti. Við reyndum að gera gott úr þessu og peppa hvorn annan upp. “Þetta er nú alveg þokkalegt sánd” sagði Matti. “Ansi er gaman að fylgjast með þessum bassaleikara, hann hreyfir sig eins og köttur á sviðinu” sagði ég. Það var að myndast þeigjandi samkomulag milli okkar að yfirgefa Johnnyd’s á fimmta laginu.
Fyrir einhverja forsjón örlaganna héngum við ögn lengur – nógu lengi til að heyra söngvara “Memphis Rockabilly” tilkynna: “This was our last song and it gives me a great pleasure to introduce my favourite guitar player, Mr. Duke Robillard”.
Og nú fór að hitna í kolunum. Nýir menn stigu á svið það fór ekki á milli mála að fyrir þeim fór Duke Robillard. Frægðin hefur farið vel með kappann. Hann fitnað verulega frá DVD myndbandinu góða og við Matti vorum sammála um að það hlýtur að vera ár og dagur síðan hann sá á sér ýmsa líkamshluta öðruvísi en í spegli. Ég náði meira að segja mynd af Matta í hrókasamræðum við þennan mikla gítarstólpa sem gladdi okkur svo með alveg hreint frábærum tónleikum. Allt bandið var svakalega þétt og fínt, baritónsax, trommur og bassaleikari sem minnti dáldið á Kalla Möller og spilaði af tærri snilld – gersamlega áreynslulaust. Frábært laugardagskvöld. Meira síðar af ævintýrum fiðludrengsins í Boston.

0 comments on “Ævintýri fiðludrengsins í Boston, fyrri hluti

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: