Ævintýri fiðludrengsins í Boston, seinni hluti


Matti átti pantað flug heim á sunnudagskvöldi, sólarhring eftir að hann kom. Við ætluðum að nýta daginn vel. Héldum í bæinn snemma dags og byrjuðum í Cambridge, nánar tiltekið á svæði Harvard háskólans. Þar hittum við m.a. fyrir John Harvard (sjá mynd) sem sagði fátt enda steyptur í brons. Hann átti stóran þátt í upphafi þessa magnaða háskóla sem var stofnaður 1636. John Harvard ánafnaði nefnilega skólanum bókasafn sitt og helming eigna sinna er hann lést 1638. Í þakklætis- og heiðursskyni var skólinn nefndur eftir honum og nafni John Harvard verður líklega haldið á lofti um ókomnar aldir.
Jæja, við gengum um kampusinn og heyrðum falleg klukknahljóð. Það stóð heima, klukkan var orðin 11 og það var að hefjast messa í kapellunni. Við gengum inn og hlýddum á Bachkantötu á orgelið og aldeilis ágætan kór flytja músík eftir spænskt miðaldatónskáld sem ég man ekki hvað heitir. Svo tók við predikun. Við ætluðum að læðast út en séra Canon Dr. Samuel Wells náði tökum á okkur og við hlustuðum til enda á predikun hans á þakkargjörðardegi (All saints day). Ég hef sjaldan heyrt jafn sterka predikun en samt flutta á svo hófstilltan hátt. Við yfirgáfum Harvard upp úr hádeginu og fannst við vera töluvert gáfaðri eftir að hafa varið þessum morgni á svæði besta háskóla í heimi.
Ég fór með drenginn á Kendall og sagði honum aðeins frá MIT og auðvitað fórum við á svæði Berklee tónlistarskólans og skoðuðum aðstæður. En mikil áhersla var lögð á búðarráp þar sem ég leiddi fiðludrenginn í verslunarmiðstöðvar hér og hvar. Við komum heim um kl. 17 hlaðnir pokum – tilbúnir til að leggja af stað út á flugvöll. En okkur varð ekki kápan úr því klæðinu því vegna óveðurs á Íslandi var allt flug til og frá Íslandi í lamasessi. Á heimasíðu Logan flugvallar stóð “Cancelled” við flugið hans Matta. Við eyddum kvöldinu í að hringja út og suður, til Íslands og Baltimore til að ná tali af einhverjum til að fá skýringar. Náðum ekki sambandi við nokkurn mann. Um kvöldið kom melding inn á heimasíðu Flugleiða um að flugið hans Matta væri áætlað kl. 19.30 á mánudeginum, sólahring á eftir áætlun. Flugleiðir hafa vissulega ekki stjórn á veðurguðunum – en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að fyrirtækið leggi sig fram um að veita viðskiptavinum sínum upplýsingar og við svona aðstæður er ekki bjóðandi upp á annað en að starfsfólk fyrirtækisins svari í símann.
Ekki var um annað að ræða en að una þessu. Matti fékk því auka dag í búðarráp á mánudeginum og ekki dugði annað en festa kaup á ferðatösku undir allan varninginn. Mary brá í brún þegar hún sá töskuna. Af lýsingu hennar hélt ég að Matti hefði keypt sér 20 feta gám en það var nú ekki alveg svo slæmt.
Jæja, þetta endaði bærilega, ég ók Matta sjálfur út á völl kl. 16.30. Ég frétti síðar að vélin – sem átti að fara í loftið kl. 19.30 – hefði tekið á loft kl. 23. En fiðludrengurinn komst heim til sín um síðir – reynslunni ríkari !

0 comments on “Ævintýri fiðludrengsins í Boston, seinni hluti

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: