Í þá mánuði sem ég hef verið hér hef ég tekið lestina daglega fram og tilbaka á skrifstofu mína í MIT. Aldrei hefur nokkur maður gefið sig á tal við mig. En kl. 6.30 í morgun var brotið blað þegar snaggaralegur náungi gaf sig á tal við mig á Savin Hill. Hann hét Dave og opnaði á að kvarta yfir hversu strjálar lestirnar væru á laugardagsmorgnum, og ég gat vel tekið undir það. Svo opnuðust allar flóðgáttir og í ótrúlega stuttu samtali gaf hann mér – óbeðinn – innsýn inn í margslungið líf sitt. Dave hafði verið á fylleríi kvöldið áður og bar það raunar með sér þegar vel var gáð, hann var með tárin í augunum af timburmönnum. “I drink too much” sagði hann. Það kom í ljós að hann var á leiðinni oní bæ að hitta menn kl. 7 og snæða með þeim morgunverð. Það snérist um viðskipti því hann var að íhuga að kaupa af þeim fyrirtæki. Viljið þið giska á hvernig fyrirtæki? Þetta var víst bar 🙂 Og ekki nóg með það. Í húsinu voru tvær íbúðir á efri hæðum og Dave sá fyrir sér að geta búið í annarri þeirra. Allskonar hugsanir flugu um í höfði mínu þegar ég heyrði þetta og á ástkæra ylhýra málinu hefði ég sjálfsagt verið tilbúinn með kaldhæðna athugasemd. Það var komið fram á varirnar á mér að segja “wake up and smell the coffee” við Dave en ég hætti sem betur fer við. Það hefði sennilega ekki átt við og að auki hljómað klaufalega úr mínum munni.
0 comments on “"I drink too much"”