Mörg fyrirtæki kjósa að líta á viðfangsefni sín sem verkefni og undirbúa þessi viðfangsefni og fylgja þeim eftir sem slíkum. Oftast er þetta mjög rökrétt niðurstaða, til dæmis þegar flest viðfangsefni fyrirtækisins eru sannarlega verkefni og verið er að nýta hin takmörkuðu aðföng sem fyrirtækið býr yfir til að framkvæma þessi verkefni. En ekki dugar fyrir fyrirtæki að gerast verkefnadrifið í orði; þetta þarf að gerast á borði ef árangur á að nást. Byggja verður upp stjórnkerfi og innviði sem styðja við undirbúning og framkvæmd verkefna. Halda verður utan um að verkefnin séu ætíð í samræmi við stefnu fyrirtækisins, gæta verður að því að að aðföngum fyrirtækisins sé skynsamlega varið og að réttu verkefnin séu valin.
Stjórnun hins verkefnadrifna fyrirtækis grundvallast á vel þekktum aðferðum við að velja, undirbúa og framkvæma verkefni og verkefnastofna, og samræma verkefnaskrár. Verkefnadrifið fyrirtæki lærir meðvitað af reynslunni og byggir upp þekkingu á verkefnastjórnun, til dæmis með því að þjálfa starfsfólkið. Sú þekking nær yfir öll lög skipuritisins. Ekki er nóg að þjálfa liðsmenn sem kunna hugtök verkefnastjórnunar og verkefnastjóra sem hafa reynslu í að stjórna verkefnum. Yfirstjórn fyrirtækisins ber á endanum ábyrgð á öllum ákvörðunum og gegnir mikilvægu hlutverki í allri þeirri starfsemi verkefnadrifna fyrirtækisins sem hér hefur verið lýst. Í yfirstjórn fyrirtækisins sitja bakhjarlar verkefnastjóranna, en til þeirra sækja verkefnastjórarnir ábyrgð sína og umboð. Bakhjarlarnir veita aðföng, taka grundvallandi ákvarðanir, taka þátt í mótun markmiða og huga að samhengi verkefna við stefnu. Hlutverk bakhjarlsins er mikilvægt í hinu verkefnadrifna fyrirtæki, ekki síður en hlutverk verkefnastjórans. Góður bakhjarl er reyndur stjórnandi sem þekkir innviði, stefnu og framtíð fyrirtækisins, en hefur einnig þekkingu og reynslu í verkefnastjórnun.
0 comments on “Drottinn leiði drösulinn minn”