“Allt er í heiminum hverfult” kvað Jónas Hallgrímsson. Við getum velt vöngum yfir því hvað flaug um huga skáldsins þegar hann ritaði þetta snemma á 19. öld. Kannski fannst honum allt vera að breytast með miklum hraða og að landið hans stæði frammi fyrir nýju umhverfi, öðru umhverfi en þegar fornaldarhetjurnar riðu um héruð á tímum frelsis og manndáða.
Sömu tilfinningar bærast svo sannarlega í brjóstum okkar í dag. Hraði breytinga hefur aldrei verið meiri, og hann fer vaxandi. Kynslóðir koma, kynslóðir fara, nýju fólki fylgir ný hugsun, nýjar áherslur, ný viðmið, nýjar væntingar. Upplýsingar flæða frjálst, samspil og samstarf fær vaxandi vægi og fyrirtæki þurfa að mæta kröfum margskonar hagsmunaaðila í innra og ytra umhverfi. Þeir sem kjósa að sitja á hliðarlínu og telja sér trú um að þeir geti beðið af sér breytingarnar, þeir eru á villigötum og munu trúlega vakna upp við vondan draum. Rannsóknir PMI, bandarísku verkefnastjórnunarsamtakanna, draga saman einkenni þeirra fyrirtæki sem lifa af í krefjandi og síbreytilegu samkeppnisumhverfi samtímans. Þetta eru fyrirtækin sem geta aðlagað sig að hinu breytilega umhverfi; breytt verklagi sínu, þróað nýja þjónustu eða vörur, aukið skilvirkni sína og mætt á hverjum tíma nýjum kröfum sem til þeirra eru gerðar úr umhverfinu.
Til að takast á við breytingar er gott að líta á þær sem verkefni, undirbúa þessi verkefni, framkvæma þau, skila niðurstöðu og draga lærdóm af áunninni reynslu. Verkefnadrifin fyrirtæki með menningu sem styður við stöðugar umbætur hafa því forskot. Þau hafa mótað sér framtíðarsýn en eru sveigjanleg og geta lagað sig að breyttum aðstæðum. Þau eru skipuð þekkingarstarfsmönnum sem taka ábyrgð á verkum sínum. Þau hafa innleitt besta verklag í að undirbúa og framkvæma verkefni og þau brestur ekki kjark í að gera það sem gera þarf, jafnvel þó það kunni að virðast erfitt.
0 comments on “Kjarkinn má ei vanta”