Margar ástæður geta verið fyrir því að verkefni fara fram úr kostnaðaráætlun. Algeng ástæða er trúlega að ekki er gerð nein nothæf og raunhæf kostnaðaráætlun í upphafi. Þá liggur fátt annað fyrir en illa skilgreindur kostnaðarrammi – óskhyggja þeirra sem vilja koma verkefninu til framkvæmdar. Önnur algeng ástæða er sú að stýringu verkefnisins meðan á því stendur er ábótavant. Lagt er af stað með þá fyrirætlan að búa til tiltekna niðurstöðu en á vegferðinni eru gerðar allskonar breytingar og niðurstaðan verður á allt annan veg en ætlað var í upphafi, enginn tekur ábyrgð og enginn lærdómur er dreginn af mistökunum.
Það sem skiptir sköpum í að verkefni heppnist er fagmennska. Þegar horft er til þess hve miklum fjármunum er ráðstafað í formi verkefna verður að gera þá kröfu að beitt sé faglegum aðferðum verkefnastjórnunar. Meðal annars þarf að vera tryggt sé að réttu verkefnin séu valin sem samræmast fyrirliggjandi stefnu. Ekki síður að menn skilgreini eftir bestu getu hverju verkefnin eigi að skila og geri áætlanir til að hrinda þeim í framkvæmd. Síðast en ekki síst að menn fylgi verkefnum eftir af röggsemi á meðan á þeim stendur, stýri þeim og takist á við breytingar með viðeigandi hætti.
0 comments on “Stígum fastar á fjöl”