Skoðum málið aðeins. Hann er undir ótrúlegri pressu að skila af sér á tilsettum tíma. Hann þarf að þóknast öllum; er með ómögulegan yfirmann sem skortir alla næmni í mannlegum samskiptum. Hann er með óráðþægna samstarfsmenn og að reyna að stjórna þeim er eins og að smala köttum. Reyndar er líka stór og grimmur köttur að sniglast í kringum hann þannig að hann lifir við svakalega áhættu og óvissu. Svo eru gerðar ómennskar kröfur til hans; hann á að skila öllum þessum pökkum, af réttum eiginleikum, á réttum tíma og þeir mega ekki kosta neitt. Ég hvet lesendur mína til að líta í eigin barm. Kannist þið við þetta (nema kannski köttinn)?
Hann hlýtur að undirbúa sig vel; gera góða áætlun um þetta allt og fylgja henni eins og kostur er. En margt óljóst með þær kröfur sem til hans eru gerðar og ég held að hann hljóti að kunna góð skil á agile líka. Hann hlýtur að vera alger heimsmeistari í mannlegum samskiptum; að ná að lempa allt þetta einkennilega fólk í umhverfi sínu, og mæta um leið kröfum allra þeirra fjölmörgu sem treysta á hann.
Það ber allt að sama brunni. Jólasveinninn er verkefnisstjóri. Kannski hann sé meira að segja vottaður?
Gleðileg jól 🙂
0 comments on “Er jólasveinninn verkefnisstjóri?”