Kveikja þessa pistils er erindi Dr. Beverly Pasian á 2. rannsóknaráðstefnu IPMA sem fram fór í viðskiptaháskólanum í Tianjin í Kína í desember.
Eins og rakið hefur verið í fyrri pistlum er verkefnastjórnun ung fræðigrein í örum vexti. Fræðimenn á sviðinu hafa barist fyrir tilverurétti verkefnastjórnunar sem sjálfstæðrar fræðigreinar. Á síðustu árum og áratugum hefur sú barátta skilað góðum árangri og helstu vísindatímarit á sviði verkefnastjórnunar, t.d. IJPM og PMJ, eru á svokölluðum ISI lista sem er gæðastimpill fyrir vísindatímarit.
Um skeið hefur verið ljóst að það þarf að skilgreina betur þær rannsóknaaðferðir sem eru viðeigandi og hentugar á sviði verkefnastjórnunar. Í MPM námi við HR hefur undanfarin ár verið brugðist við þessu með því að þróa sérstakt rit, “Háskólakver fyrir gagnfræðanema” sem er sérhannað stoðrit fyrir nemendur sem skria lokaritgerð í MPM námi.
Á rannsóknaráðstefnunni í Tianjin í Kína flutti Dr. Beverly Pasian erindi og vék meðal annars að nýrri bók sem hún hefur ritstýrt fyrir Gower útgáfuna í London og kemur út á fyrri helmingi ársins 2015. Bókin heitir “Design, methods and practices for research of project management.” Nokkur dæmi um viðfangsefni þessarar bókar skulu hér nefnd en hún er rituð af mörgum hátt skrifuðum vísindamönnum um allan heim sem hver um sig er ábyrgur fyrir einum kafla. Fjallað er almennt um rannsóknir í verkefnastjórnun og hvernig takast megi á við hið þverfaglega eðli verkefnastjórnunar í rannsóknum. Rætt er um rannsóknaaðferðir, hvernig byggja má upp rannsóknaspurningar og rætt er um siðferðisleg álitamál, öflun heimilda og viðtalstækni. Rætt er um dæmisögur (case studies), kvika nálgun (agile), blandaðar aðferðir (mixed methods), rannsóknir á teymum, félagsleg net (social network) og nýtingu þeirra. Loks er rætt við reynda prófessora og leiðbeinendur sem deila reynslu sinni af leiðsögn meistara- og doktorsnema á sviðum verkefnastjórnunar.
Þessarar bókar er beðið með eftirvæntingu og hún verður skyldueign fyrir alla þá sem vilja stunda rannsóknir á fræðasviðum verkefnastjórnunar.
Þessarar bókar er beðið með eftirvæntingu og hún verður skyldueign fyrir alla þá sem vilja stunda rannsóknir á fræðasviðum verkefnastjórnunar.
0 comments on “Hvernig á að stunda rannsóknir á sviðum verkefnastjórnunar?”