Á 2. rannsóknarráðstefnu IPMA í Tianjin í Kína í desember flutti Dr. Mladen Vukomanović dósent við háskólann í Zagreb í Króatíu erindið “Developing a Project Management Methodology for Major Public Infrastructure Projects”. Hann dró upp mynd af mikilvægi verkefnastjórnunar í hagkerfum heimsins; þriðjungi af landsframleiðslu er varið til verkefna. Mladen benti á að veruleg vanhöld væru á að tilætluðum árangri væri náð í stjórnun verkefna og ekki síst ætti það við um byggingariðnað þar sem verkefni færu oft úr böndum. Mladen ræddi þetta sérstaklega út frá opinberum innviðaverkefnum í heimalandi sínu og sagði að fjallaði um þörfina á að þróa og innleiða aðferðafræði verkefnastjórnunar til að halda utan um slík verkefni.
Umræður spunnust eftir erindi Mladens og sérfræðingar frá Kanada, Þýskalandi og Bretlandi kváðu sér hljóðs og sögðu að hliðstæð vandamál væru til staðar í þeirra löndum. Byggingariðnaðurinn væri einangraður, fastur í gömlum hjólförum og ekki væri nægur vilji til að nota aðferðir verkefnastjórnunar. Nauðsynlegt væri að styðja iðnaðinn og þróa hann í rétta átt en taka afmörkuð skref til umbóta og reyna ekki að lagfæra allt í einu. Til dæmis hefði það gefist vel í Kanada að byrja á að vekja iðnaðinn til vitunar um breytingastýringu. Fram kom að í Þýskalandi væri það vandamál að það væru mörg hlutverk og ábyrgð væri oft óljós; margir bera titilinn verkefnisstjóri en hver ber ábyrgðina? Frá Bretlandi kom fram það viðhorf að verkefnisstjórarnir væru kannski vel þjálfaðir og reyndir, en það vantaði mikið upp á að nauðsynleg þekking og vitund væri til staðar hjá verkefniseigendum, bakhjörlum og verkkaupum.
Er ástandið á Íslandi verra, betra eða svipað og í öðrum löndum? Þórður Víkingur Friðgeirsson varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Reykjavík þann 6. febrúar. Titill hennar er “Improvement of the Governance and Management of Icelandic Public Projects.” Þórður rannsakaði í hve miklum mæli hinni formlegu aðferðafræði verkefnastjórnunar er beitt til að tryggja skilvirkni og hagkvæmni í verkefnum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þórður sýndi fram á að slík verkefni fara iðulega fram úr kostnaðaráætlun og það eru veruleg sóknarfæri í að bæta regluverk og aðferðir opinberra aðila varðandi undirbúning og framkvæmd verkefna.
0 comments on “Framúrkeyrsla í opinberum innviðaverkefnum – alþjóðlegt vandamál?”