Lífvana og bitlaus?

Undanfarna mánuði hef ég skrifað nokkra stutta pistla hér á bloggið sem fjalla um helstu viðfangsefni mín í starfi, einkum þó verkefnastjórnun en einnig stefnumótun og gæðastjórnun. Algeng leið til að draga fram áherslur og setja mál í samhengi er að setja upp raundæmi og víst er að enginn hörgull er á raundæmum um það sem betur mætti fara í stjórnun verkefna, mótun stefnu og innleiðingu og rekstri gæðakerfa í fyrirtækjum.
Nú er það svo að aðaláhugamál mitt er að semja og flytja tónlist og sumir myndu segja að sá heimur sé allt annar og þjóni öðrum lögmálum. Mig langar að gera atlögu að því að máta saman þessa tvo heima og kanna hvort og hvernig heimfæra megi ýmis þekkt vandamál í stjórnunarfræðum upp á tónlistarheiminn, hvernig þau myndu líta og og hvort eitthað megi læra, eða að minnsta kosti hafa gaman af.
Byrjum á að ímynda okkur sinfóníuhljómsveit sem hefur sérhæft sig í verkum gömlu klassísku meistaranna. Til hennar hefur verið ráðinn stjórnandi; maður með sterkan og merkilegan tónlistarlegan bakgrunn. Hann byrjar á því að loka sig af í tvær vikur í fjallakofa og þar leggur hann línurnar um áherslur á tveggja ára ráðningartímabili sínu. Hann ákveður – á grundvelli eigin smekks og geðþótta – hvaða tónlist hljómsveitin mun leika. Hann vill heldur betur láta kveða við nýjan tón og ákveður að leggja alla áherslu á nútímatónlist. Hann býr til dagskrá tvö ár fram í tímann, ákveður út frá þessu mannaráðningar og gerir áætlun um æfingar og rekstur. Á fyrstu æfingu eftir þessa vinnulotu sína gerir hann hljómsveitinni grein fyrir hvaða verk verða fyrst tekin fyrir, án þess að gefa innsýn í hugmyndir sínar um framtíðina. Verkið er æft og flutt fyrir hálftómu húsi því í ljós kemur að áheyrendur deila ekki tónlistarsmekk stjórnandans og að auki fær verkið vonda dóma og talað er um áhugaleysi og líflausan flutning hljómsveitarinnar.
Dæmið sem hér er dregið upp úr tónlistarheiminum kallast á við þekkt minni úr stefnumótun. Stjórnandinn ákveður að móta stefnu á eigin forsendum, án samráðs og án þess að gera samstarfsmenn sína að þátttakendum. Hann lætur einnig undir höfuð leggjast að kanna umhverfið og meta hugsanleg viðbrögð markaðarins. Til að bæta gráu ofan á svart mistekst honum einnig að miðla framtíðarsýn sinni til hljómsveitarinnar; hann heldur fyrirætlunum sínum fyrir sjálfan sig og með því móti gerir hann enga tilraun til að byggja upp áhuga eða stemningu, hvað þá að búa til tilfinningu meðal hljómsveitarmeðlima að þeir eigi nokkra hlutdeild í þessari framtíðarsýn. Allt leiðir þetta til þess að hljómsveitin er áhugalaus og flutningur verksins verður lífvana og bitlaus. Dæmið hér að ofan virðist fáránlegt en hliðstæð vandamál eru algeng í atvinnulífinu.
Mikilvægur þáttur í mótun stefnu er að kanna umhverfið, bæði hið innra og ytra umhverfi, draga upp skýra mynd af markaðnum og þeim aðföngum sem úr er að spila. Í þekkingarfyrirtækjum samtímans er æskilegt að mótun stefnu eigi sér stað í samstarfi þar sem starfsmenn eiga hlutdeild og taka virkan þátt, enda eykur það líkur á að þeir upplifi hlutdeild sína í stefnunni og verði virkari í eftirfylgni hennar. Ef sá kostur er valinn að móta stefnu án beinnar aðkomu starfsmanna er lágmark að miðla stefnunni til þeirra þannig að þeir séu upplýstir um það hvert fyrirtækið hyggst halda.

0 comments on “Lífvana og bitlaus?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: