Litlu rannsóknateymi við Háskólann í Reykjavík var treyst fyrir afskaplega mikilvægu verkefni. Alþjóðasamtök verkefnastjórnunarfélaga (IPMA) fólu mér að stýra því vandasama verki að setja saman siðareglur fyrir samtökin. Harðsnúið teymi tók að sér að vinna þetta verk, sumsé Haukur Ingi Jónasson og Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, ásamt mér sjálfum. Myndin er tekin 29. mars síðastliðinn þegar ég – fyrir hönd teymisins – tók við viðurkenningu úr hendi Reinhard Wagner núverandi forseta IPMA fyrir vel unnið starf. Til hægri er Mladen Radujkovic, fyrrum forseti IPMA.
Þau Haukur Ingi og Ólöf Embla eru bæði sprenglærð í heimspeki og vinnan við að þróa siðareglurnar var bæði skemmtileg og gefandi. Segja má að vegferðin hafi skipt miklu máli, ekki síður en útkoman. Það er nefnilega forsenda fyrir því að siðareglur sem þessar nýtist og séu teknar alvarlega, að þær hafi verið búnar til í faglegu ferli þar sem ólík sjónarmið eru tekin inn í myndina. Þetta er hægara um að tala en í að komast þegar um er að ræða alþjóðleg samtök sem starfa í 60 þjóðlöndum. Við fórum þá leið að gangast fyrir vinnustofum, þegar fulltrúar frá hinum ýmsu þjóðlöndum komu saman, en einnig gerðum við alþjóðlega rannsókn og söfnuðum saman viðhorfum og skoðunum verkefnastjóra úr öllum heimshornum.
Ég mun lengi minnast fundanna okkar í HR þegar við reyndum að vinna úr öllum upplýsingunum. Við þurftum að máta hugmyndir okkar og prófa þær með gagnrýninni umræðu. Í þessu skyni bjuggum við til margskonar próf, til dæmis hið svonefnda “búrkupróf” sem ég segi kannski frá síðar!
Ég mun lengi minnast fundanna okkar í HR þegar við reyndum að vinna úr öllum upplýsingunum. Við þurftum að máta hugmyndir okkar og prófa þær með gagnrýninni umræðu. Í þessu skyni bjuggum við til margskonar próf, til dæmis hið svonefnda “búrkupróf” sem ég segi kannski frá síðar!
Við þurftum að taka afstöðu til ólíkra viðhorfa og búa til drög að siðareglum sem svo voru bornar undir fjölmennan hóp álitsgjafa, sem gáfu okkur endurgjöf, sem við nýttum til að endurbæta siðareglurnar og þannig gekk þetta koll af kolli. Niðurstaðan var svo samþykkt á heimsþingi IPMA í Dublin þann 29. mars síðastliðinn.
Siðareglurnar verða ómetanlegt hjálpartæki fyrir alla þá sem stýra og taka þátt í verkefnum samtímans og standa frammi fyrir erfiðum álitamálum. Þær taka á skuldbindingu verkefnastjórans gagnvart verkefniseigendum og hagsmunaaðilum, en einnig gagnvart samstarfsfólki og undirmönnum. Þær fjalla um ábyrgð verkefnastjórans gagnvart samfélaginu og þær tæpa á sjálfbærni og hinu náttúrulega umhverfi. Síðast en ekki síst fjalla þær um verkefnastjórnun sem faggrein og þá ábyrgð verkefnastjóra að sýna fagmennsku í störfum sínum til að tryggja og byggja upp orðspor þessarar faggreinar.
Siðareglurnar verða ómetanlegt hjálpartæki fyrir alla þá sem stýra og taka þátt í verkefnum samtímans og standa frammi fyrir erfiðum álitamálum. Þær taka á skuldbindingu verkefnastjórans gagnvart verkefniseigendum og hagsmunaaðilum, en einnig gagnvart samstarfsfólki og undirmönnum. Þær fjalla um ábyrgð verkefnastjórans gagnvart samfélaginu og þær tæpa á sjálfbærni og hinu náttúrulega umhverfi. Síðast en ekki síst fjalla þær um verkefnastjórnun sem faggrein og þá ábyrgð verkefnastjóra að sýna fagmennsku í störfum sínum til að tryggja og byggja upp orðspor þessarar faggreinar.
0 comments on “Siðareglur fyrir verkefnastjóra um allan heim !”