Lögverndun starfsheitisins – hvað á að vernda?

Eftir því sem verkefnastjórnun vex fiskur um hrygg og fleiri og fleiri mennta sig og fá alþjóðlega vottun þá verður áleitnari sú spurning hvort stefna beri að einhvers konar lögverndun starfsheitisins. Sú spurning er tengd þeirri staðreynd að starfsheitið er notað frjálslega víða í atvinnulífinu, ekki síst hjá ríki og sveitarfélögum. Þar er starfsheitið oft notað til að raða í launaflokka fólki sem er alls ekki að fást við verkefni í sínum daglegu störfum.

Ég hef haldið mér til hlés í þessari umræðu. Mér finnst þörf á að skýra út hvað það er að vera verkefnisstjóri en á sama tíma er mér ekki vel við boð, bönn og þvinganir. Ég myndi helst vilja sjá jákvæða þróun í notkun starfsheitisins, eftir því sem aðferðafræðinni vex fiskur um hrygg og vitundin um faglega verkefnastjórnun nær meiri fótfestu.
Þróunin í Bretlandi hefur vakið athygli en þar stefnir í að tekin verði upp lögverndun (e. chartering) starfsheitisins. Hliðstæðan við “charterered accountant” í Bretlandi er löggiltur endurskoðandi á Íslandi. MPM námið og MPM félagið fengu nýverið frábæran gest. Þetta er Tom Taylor, forseti APM – breska verkefnastjórnunarfélagsins sem er stærsta og öflugasta aðildarfélag IPMA. Tom fékk spurningar um þessa þróun í Bretlandi og hvað fælist í þessari “verndun.” Viðbrögð Toms komu ýmsum á óvart. Fyrst í stað skildi hann ekki alveg hvað átt var við. Svo áttaði hann sig á að fyrirspyrjendur höfðu einkum áhuga á verndun réttinda þeirra sem farið hefðu í gegnum nám eða alþjóðlegt vottunarferli í verkefnastjórnun. Tom gat útskýrt að hugmyndin um lögverndun í Bretlandi gengur ekki fyrst og fremst út á að vernda réttindi þeirra sem bera starfsheitið. Miklu frekar gengur hún út á að vernda samfélagið. Það fylgja því nefnilega bæði réttindi og skyldur að hafa lögverndað starfsheiti. Þetta tengist fagmennsku, siðareglum og þróun faggreinarinnar. Tom útskýrði að ef starfsheitið verkefnisstjóri verður lögverndað í Bretlandi felur það í sér að samfélagið getur gert þá kröfu til viðkomandi fagmanns að hann hegði sér sem slíkur og sýni fagmennsku og sé á hverjum tíma verðugur fulltrúi faggreinar sinnar – og ekki einungis á vinnutíma.
Vandi fylgir vegsemd hverri. Það er hollt að hafa þessi orð Tom Taylor í huga þegar við hugsum um lögverndun starfsheitisins verkefnisstjóri hér heima. Við verðum að nálgast spurninguna á réttum forsendum. Við skulum fylgjast vel með þróuninni í Bretlandi. Það er nauðsynlegt fyrir þróun faggreinarinnar að við séum á hverjum tíma ábyrgir fulltrúar hennar, tökum hlutverk okkar alvarlega og sýnum ábyrgð og festu í orðum okkar og gjörðum. Í þessu efni er óþarft að bíða eftir að við fáum lögverndun á starfsheitið.

0 comments on “Lögverndun starfsheitisins – hvað á að vernda?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: