Ég er staddur í Afríku við kennslustörf á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna og Þróunarsamvinnustofnunar. Þessi pistill er ritaður í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Í aðdraganda þessarar ferðar reyndi ég að rifja upp hvað ég vissi um þetta land, sem var ekki mikið. Ég mundi þó eftir mikilli hungursneyð í Eþíópíu og “Band aid” tónleikunum sem Bob Geldoff stóð fyrir 1984 til að afla fjár til Eþíópíu. Fólkið í kringum mig spurði hvort ég væri ekki smeykur við ebólu – þegar ferðina bar á góma. Ég svaraði því til að Afríka væri ansi stór, ebólan væri á vesturströndinni en Eþíópía á austurströndinni. En þegar ég skoðaði landakortið sá ég að í nálægð við Eþíópíu eru töluverð óróasvæði, Sómalía, Súdan og Suður Súdan, og stutt til Yemen. Ég skal vera heiðarlegur og viðurkenna að um tíma var ég helst á því að hætta við þessa ferð.
En sem betur fer sló ég til og það er töluverð upplifun að koma til Addis Ababa. Eþíópíumenn eru 90 milljónir og þar af búa 4.5 milljónir í höfuðborginni. Flugfélagið þeirra, Ethiopian Airlines, er ört vaxandi og með nýjan flota glæsilegra flugvéla, ég flaug með Boeing 787 dreamliner. Hér er gríðarleg uppbygging. Lífskjörin í borginni eru mun betri en á landsbyggðinni en í borginni má sjá töluverðar andstæður sem endurspeglast til dæmis í bílaflórunni; hér eru lúxusbílar og eldgamlar lödur. Umferðin er býsna kaotísk, ég hef enn ekki séð umferðarljós en allt gengur þetta nú upp samt og allir komast sína leið. Hvert sem litið er í borginni má sjá uppbyggingu, hálfbyggð hús hér og þar en innviðirnir eru fátæklegir; göturnar eru holóttar, engar gangstéttar eru við götuna þar sem hótelið mitt er og hér ægir öllu saman í einni kös, allskonar bílum, fólki og ég hef jafnvel séð kýr á vappi í borginni. En ég held að Eþíópía eigi svo sannarlega framtíðina fyrir sér, núna veit ég til dæmis að landsmenn eru sjálfum sér nægir með sjálfbæra orku, þeir eiga vatnsaflsvirkjanir, vindmyllur og eru að byrja að nýta jarðhitann sem nóg er af hér í landi.
Það er öryggisgæsla hvert sem litið, kannski er það vegna þess að hér voru kosningar fyrir fáeinum dögum. Fólkið er vingjarnlegt og brosmilt og því virðist líða vel. Í fyrirlestri í dag var meðal annars verið að ræða um hugtakið “áreiðanleiki” sem er eitt af lykilhugtökum í hugtakagrunni í verkefnastjórnun sem ég er að kenna. Einn nemandi minn hafði á orði að það væri svo sem gott og blessað að skrifa um áreiðanleika í þessum hugtakagrunni. Veruleikinn í Afríku væri þó sá að það væri mikill skortur á áreiðanleika. Til dæmis þegar flutt væru inn lyf frá útlöndum þá væri alls ekki víst að þau hefðu rétta samsetningu og virkni. Ég svaraði því þannig til að lykillinn að því að breyta þessu væri að Eþíópíumenn styrktu sig með menntun og þjálfun og gæfu engan afslátt í kröfum sínum varðandi áreiðanleika þeirra sem eiga við þá viðskipti. Ég hef lagt til að nemendahópurinn minn hér hafi frumkvæði að því að stofna Verkefnastjórnunarfélag Eþíópíu sem gengi að því loknu í IPMA, Alþjóðasamtök Verkefnastjórnunarfélaga. Við sjáum hvað setur.
Ég má til með að láta fylgja með að í hádegismat á hótelinu mínu kom til mín Íslendingurinn Magni sem er í svipuðum erindagjörðum og ég; hann kennir námskeið á vegum landbúnaðarstofnunar Eþíópíu. Er það ekki dæmigert að af 330.000 Íslendingum séu tveir – ótengdir – staddir á sama hóteli í hinni fjölmennu Eþíópíu?
Ég má til með að láta fylgja með að í hádegismat á hótelinu mínu kom til mín Íslendingurinn Magni sem er í svipuðum erindagjörðum og ég; hann kennir námskeið á vegum landbúnaðarstofnunar Eþíópíu. Er það ekki dæmigert að af 330.000 Íslendingum séu tveir – ótengdir – staddir á sama hóteli í hinni fjölmennu Eþíópíu?
0 comments on “Vangaveltur frá Addis Ababa”