Kveðjur frá Kenýa

Ég kom til Kenýa á fimmtudaginn frá Eþíópíu. Í aðflugi að flugvellinum í Nairobi leit ég út. Mér leið svolítið eins og Karen Blixen í Out of Africa þegar vélin lækkaði flugið og ég horfði niður á keimlíkt landslag og blasti við frú Blixen í myndinni. Ég var jafnvel að vonast til að sjá hjarðir af antílópum, og kannski eitt og eitt ljón. En ég sá ekkert slíkt.

Á flugvellinum varð ég strax var við heilmikla öryggisgæslu. Ég útfyllti ein þrjú form og það fyrsta snérist augljóslega um hvort ég væri með ebólu. Þeir mældu hvort ég væri heitur. Svo var ekki og ég komst í gegn og átti ánægjulega endurfundi við ferðatöskuna mína.
Það var tekið á móti mér eins og höfðingja, “Professor Ingason” stóð á hvítu skilti sem brosmild stúlka og piltur héldu á; þau hétu Racheal og Kevin. Fyrr en varir var ég kominn í smárútuna þeirra og á leið inn í bæinn. Við ókum framhjá “miracle center” og ég hugsaði með mér að það vantaði líklega þannig miðstöð á Íslandi. Ég sá fljótt að umferðin var býsna kaótísk og allskonar sénsar teknir en þegar nálgaðist miðbæinn tók við gríðarleg umferðarstappa og augljóst að Nairobi er eins og hver önnur stórborg, með alltof marga bíla. Andstæðurnar voru annars ótrúlegar, sem endurspeglaðist m.a. í bílaeigninni því þarna mátti sjá Lamborghini en líka mestu druslur sem hægt er að hugsa sér.
Fljótlega kom í ljós að það var allt í klúðri með praktíska útfærslu ferðarinnar, af hálfu fyrirtækisins sem réð mig til að koma og halda námskeið, en ekki síður af hálfu ferðaskrifstofunnar sem þau Racheal og Kevin unnu hjá. Dagsetningar vegna gistinga voru í rugli og verðið á hótelgistingum, sýnisferðum og safariferð af annarri stærðargráðu en ég hafði samið um. Þegar á hótelið var komið upphófst mikil rekistefna milli þessara aðila. Hún var ekki útkljáð fyrr en næsta dag. Þann dag átti ég að kenna í borg sem er í 3 klst akstursfjarlægð frá Nairobi. Ég var ekki sóttur fyrr en um hádegi og kennslan frestaðist sem því nam. 26 nemendur biðu því eftir mér í 6 klukkustundir vegna þessa klúðurs. En mér þótti eftirtektarvert hvað öllu þessu klúðri og skipulagsleysi var mætt með miklu æðruleysi. Fólkið talaði saman án þess að hækka róminn, sýndi þolinmæði og vilja til að ná lendingu, og allt komst nú þetta heim og saman á endanum þannig að allir voru sáttir. Líka nemendurnir sem voru kátir og sáttir þegar ég var búinn að taka þá í gegnum nýstárlega kennsluaðferð mína sem ég kalla “ICB clinic.”
Hvernig ætli þetta geti tengst verkefnastjórnun? Tja, við segjum að samskiptahæfni sé mikilvægur hluti verkefnastjórnunar og með því að eiga skilvirk samskipti, og bera virðingu fyrir gildismati hvers annars getum við raunar komist að niðurstöðu í jafnvel erfiðustu ágreiningsmálum.
Nú hef ég fengið frú Margréti heila og höldnu frá Íslandi og næstu daga fáum við að upplifa undur Kenýa saman. Meira um það síðar !

0 comments on “Kveðjur frá Kenýa

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: