Kveðjur frá Kenýa, annar hluti

Íbúar Kenýa eru 45 milljónir talsins og þar af búa um 4 milljónir í höfuðborginni Nairobi og litlu færri í strandborginni Mombasa. Landið er ótrúlega frjósamt og mér var tjáð að aðalútflutningingsvaran væri te en einnig allskonar aðrar landbúnaðarafurðir. Kenýamenn eiga vatnsaflsvirkjanir og þeir eiga einnig jarðhitasvæði sem þeir nýta til að framleiða rafmagn, svipað og við gerum á Hellisheiði. En í Kenýa vantar orku og ég heyrði að í ráði væri að byggja kjarnorkuver.
Eftir að 26 manna hópur áhugasamra starfsmanna jarðvarmafyrirtækis í Kenýa hafði undirgengist D vottunarpróf sem ég stýrði var haldið til höfuðborgarinnar frá Nakuru, hvar prófið hafði farið fram. Þetta er fjölfarinn vegur, lengst af ein akrein í hvora átt, og ferðalagi þarna á milli má stundum lýsa sem rússneskri rúllettu. En ég komst heilu og höldu á hótelið og hitti þar Möggu, okkur báðum til mikillar gleði.
Næsta dag áttum við frábæra skoðunarferð um borgina, undir handleiðslu ljúflingsins, náttúruunnandans og fuglaskoðarans Kevins. Hann fór með okkur í deild Nairobi náttúrugarðsins þar sem hlúð er að fílum sem orðið hafa viðskila við foreldra sína. Þetta var fróðlegt og skemmtilegt, fílar gleyma engu og þeir eru félagslynd dýr. Öðru máli gegnir um gíraffa, en við skoðuðum aðra stofnun sem sérhæfir sig í að örva kynlíf gíraffa til að þeir fjölgi sér. Afkvæmunum er svo sleppt út í náttúruna. Vandi gíraffa virðist vera sá að þeir eru gleymir. Þeir hlaupa á flótta undan ljóni, en svo gleyma þeir kannski eftir skamma stund að ljónið er að elta. Mér kom í hug gullfiskaminni íslenskra kjósenda.
Leiðin lá næst á slóðir Karen Blixen. Það var ótrúlega skemmtilegt, sér í lagi vegna þess að við hjónin horfðum á Out of Africa fyrir fáeinum dögum. Stórir hlutar myndarinnar voru teknir við húsið sem Blixen hjónin fluttu í 1917.
Síðbúinn hádegsverður var snæddur á veitingahúsi sem sérhæfir sig í að bjóða gestum grillkjöt hinna margvíslegustu dýrategunda. Þarna upplifði ég meðal annars að snæða krókódíl. “Betra að ég borði krókódíl en krókódíll mig” hugsaði ég með mér en hjó þó engin skörð í krókódílastofninn. Það var nóg annað í boði og í kjötsvimanum var haldið á einskonar þjóðminjasafn Kenýa. Þar fræddumst við um hina fjölbreyttu dýraflóru, ótrúlega fjölbreytt fuglalíf og síðast en ekki síst sögu Kenýa sem skipta má í þrjú megintímabil, fyrir nýlendutímann, nýlendutímann og eftir nýlendutímann. Hugsa sér hvernig “landnemarnir” fóru að ráði sínu. Þeir létu höfðingjana “skrifa undir” samninga með fingraförum, samninga sem kváðu einfaldlega á um að höfðingjarnir gæfu land sitt – án endurgjalds – til landnemanna. Svo voru frumbyggjarnir reknir af landinu.

Svona hegðun eru auðvitað útilokuð í þeim heimi sem við teljum okkur trú um að við búum í. Siðareglur IPMA, Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga, eru afdráttarlausar og fela í sér eðlileg og sjálfsögð viðmið um mannréttindi. En það er stutt í ófögnuðinn. Spáum til dæmis í hvað hefur gerst í Qatar þar sem hermt er að 1.200 farandverkamenn hafi látist við að smíða leikvanga vegna heimsmeistarmóts í fótbolta. Ég er ekki viss um að ég muni hafa geð í mér að horfa á útsendingar frá Qatar.

0 comments on “Kveðjur frá Kenýa, annar hluti

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: