Við vorum sótt á hótelið okkar í Nairobi – Sarova Stanley – kl. 7 á mánudagsmorgni. Kevin vildi komast sem fyrst út úr borginni til að losna við umferðina og framundan var 5 klst akstur í Masai Mara þjóðgarðinn. Það var svo til engin umferð að morgni þessa þjóðhátíðardags í Kenýa. Eftir því sem lengra dró frá borginni urðu vegirnir holóttari og erfiðast var umferðin á fjölfarinni trukkaleið frá Ruanda og Tansaníu til strandborgarinnar Mombasa í Kenýa. Síðustu 2 klst ókum við á malarvegi sem var þannig að Sprengisandur er eins og malbikuð hraðbraut í samanburðinum.
Við komum inn í Mara garðinn um kl 14 og fréttum af hlébarða sem lægi í makindum uppi í tré um 20 km inni í garðinum. Við fundum köttinn og virtum hann fyrir okkur vel og lengi, ásamt fleiri túristum. Fleiri dýr sáum við þennan dag, svosem gíraffa og fíla og um kvöldið var áð í Sarova búðum og gist í best búna tjaldi sem við höfum séð, með öll þægindi eins og sturtu og náðhús og rafmagn. Rafmagnsgirðing skildi að okkur og ljónin og hýenurnar, sem að sögn vappa meðfram girðingunni að næturþeli.
Næsti dagur var ótrúlega viðburaríkur og vart hægt að segja frá í stuttum pistli en fyrir augu báru blettatígrar og ljón í návígi, hjarðir af fílum og gíröffum ásamt allskonar antílópum, sjakölum og ekki má gleyma öllum fuglunum. Hann Kevin leiðsögumaður og ökumaður okkar er nefnilega sérstakur áhugamaður um fugla og vissi allt um allt sem varðaði náttúruna í garðinum. Það sem við bjuggumst við að sjá – og sáum – voru öll þessi dýr. En svo var líka stórkostlegt að upplifa öfl náttúrunnar í ýmsum myndum því það skiptust á sólskin og hellirigning úr öskugráum þrumuskýjum. Um 22 var lagst til hvílu í tjaldinu og það sem rauf þögnina voru margskonar dýrahljóð, mest bar á fuglum en einnig mátti heyra ljónsöskur og hýenuhlátur.
Hér verður að láta staðar numið og geyma síðasta hluta þessar frásagnar frá Kenýa til næsta pistils.
0 comments on “Kveðjur frá Kenýa, þriðji hluti”