Kveðjur frá Kenýa, fjórði hluti

Við tékkuðum út úr Sarova búðunum árla morguns eftir tvær nætur á þessum magnaða stað; afgirtar búðir í miðjum þjóðgarðinum þar sem ljónin vöppuðu fyrir utan rammgerða rafmagnsgirðingu, steinsnar frá lúxustjaldinu okkar. Við dóluðum inn í garðinn í síðasta bíltúrnum okkar. Það hafði rignt mikið síðasta sólarhring og Kevin hætti sér ekki af malarvegunum. Í talstöðinni heyrðum við leiðsögumennina tala saman, að sögn Kevins voru þeir að skiptast á upplýsingum um dýrin, en einnig voru einhverjir sem höfðu fest sig í forarpyttum og kölluðu á aðstoð. Ekki leið á löngu uns við upplifðum fyrsta ævintýrið. Stór karlfíll var í vegarkanti og saup úr vatnspolli. Ranninn rúmar víst 30 lítra og og áður en yfir lauk hafði hann drukkið meira en 100 lítra. Svo tók hann að ganga, í áttina til okkar. Þegar hann var kominn í um 50 m fjarlægð byrjaði Kevin að bakka. Því réð einföld eðlisfræði; fíllinn vegur 6 tonn en bíllinn vegur 1.5 tonn. Mér fannst fíllinn segja “burtu með ykkur, hér er það ég sem ræð.” Við máttum bakka eina 300 metra áður en hann gekk út í runna og horfði á okkur með fyrirlitningu þegar við ókum framhjá. Fleiri ævintýri biðu okkar. Fréttir bárust af ljónahópi með 18 ljón rétt hjá. Þegar þangað var komið sáum við tvö á labbi. Þau gengu um 2 metra framhjá bílnum okkar.
Að þessu loknu ókum við áleiðis út úr Masai Mara. Fyrir utan garðinn stöldruðum við í Masai þorpi og það var skemmtileg upplifun. Stríðsmenn Masai sungu fornan dans þar sem sá sem hoppar hæst fær sætustu stelpuna. Ég var kallaður í dansinn og hoppaði langhæst enda er konan mín langsætasta stelpan! Hjá Masai fólkinu eru menn yfir litlu trúir og lifa fábrotnu lífi, innan um kýrnar. Jafnrétti er ekki mikið – á vestrænan mælikvarða. Hver karl má eiga allt að fimm konur. Þeir sjá um kýrnar en þær virðast sjá um flest annað, meðal annars að byggja hús úr greinum og þurrkuðu kúataði. Við fórum inn í svona hús sem okkur var tjáð að væri af stærri gerðinni, með þremur herbergjum. Það tók konuna víst þrjá mánuði að byggja þetta hús.
Við enduðum daginn á að aka að Naivasha vatninu. Þar fengum við klukkutíma bátsferð með leiðsögn og sáum fjölda fugla og þrjár fjölskyldur flóðhesta. “Þeir eru afar skapillir, en við erum líka mjög fljótir að koma okkur í burtu ef þeir reiðast” sagði leiðsögumaðurinn. Okkur fannst líka stórmerkilegt að heyra að vatnsyfirborðið hefur hækkað um nokkra metra á síðustu misserum og við bakka vatnsins má sjá drungaleg og grá tré sem eru dáin en voru græn og blómstrandi fyrir stuttu síðan, á meðan þau voru á þurru. Náttúran lætur ekki að sér hæða en ætli gróðurhúsaárifin illræmdu eigi ekki einhverja sök?
Við komum til Nairobi í myrkri eftir langan dag. Það erfiðasta var líklega hin gríðarlega umferð þegar í borgina var komið. Við vorkenndum Kevin að keyra, og þegar hann hafði skilað okkur af sér og lagt bílnum átti hann klukkutíma eftir heim til sín með almenningsvagni.

Við klárum þessar kveðjur frá Kenýa með einum lokapistli áður en langt um líður.

0 comments on “Kveðjur frá Kenýa, fjórði hluti

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: