…hvenær ég komst í jólaskap þetta árið. Það hefur ekki gerst í fáeinum heimsóknum mínum í verslunarmiðstöðvar borgarinnar, þar sem sjá mátti jólaseríur og jafnvel jólasveina strax í nóvember. Það hefur ekki heldur gerst á labbi í miðbæ Reykjavíkurborgar, þrátt fyrir ys og þys og marglituð jólaljós í verslunargluggum. Það gerðist heldur ekki á jólatónleikum í Hörpunni, þrátt fyrir ágæt tilþrif hljóðfæraleikara og söngvara. Æ það hjálpaði ekki að í kringum mig var fólk sem hafði meiri áhuga á að sötra rauðvín og spjalla saman en að hlusta á falleg jólalög.
Nei, þetta gerðist á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík í hádeginu í dag, 17. desember. Þar voru komnir saman nokkrir listamenn sem héldu tónleika til styrktar Hjartagátt LSH. Aðgöngumiðinn var ekki dýr en málefnið svo sannarlega gott. Og strengjasveit og kór undir stjórn Lilju Eggertsdóttur flutti falleg jólalög og lék undir með frábærum einsöngvurum. Þarna komu fram Sigrún Hjálmtýsdóttir og Valgerður Guðnadóttir að ógleymdum Einari Clausen.
Og hvenær komst ég í jólaskap? Nákvæmlega kl. 12.20 þegar ég hlustaði á Einar Clausen syngja Nella Fantasia. Frábær söngur, frábær túlkun og það er ekki hægt annað en að hrífast af þeim sem gefa sig 100% í það sem þeir gera. Það gerir Einar og söngur hans lætur engan ósnortinn. Ég skal viðurkenna að ég er ekki alveg hlutlaus. Hann er minn elsti vinur og ég hef verið aðdáandi hans síðan við kynntumst í 6 ára bekk í Árbæjarskóla!
Ætli ég sitji ekki bara hjá á næsta ári á þessum stóru og miklu jólatónleikum í Hörpunni eða Háskólabíói og víðar. Kannski er ég að eldast en mér finnst rauðvínssull ekki eiga vel við á hátíðlegum jólatónleikum. Kirkja, kertaljós, hógvær og hugguleg stemning, það á betur við mig á aðventunni.
0 comments on “Ég veit nákvæmlega…”