Í lok 2. misseris í MPM námi er ætíð farið í vettvangsferð út á land og áhugaverð verkefnadrifin fyrirtæki og verkefni eru skoðuð. Vorferðin í MPM2017 hópnum var farin 15. og 16. apríl til Akureyrar.
Við byrjuðum á að kynna okkur jarðgangnagerð í Vaðlaheiði. Einar Hrafn Hjálmarsson verkefnisstjóri verktakans Ósafls sagði okkur frá þessari miklu framkvæmd og sýndi okkur göngin og greindi okkur frá hinum ótrúlegu áskorunum sem menn hafa staðið frammi fyrir í þessu verkefni. Með þrautseigju og hugviti hafa menn fundið lausnir á hinum erfiðu vandamálum og samkvæmt nýjustu áætlunum verða göngin opnuð á fyrri hluta ársins 2018. Þessu næst var Akureyrarbær skoðaður undir leiðsögn Stefáns H. Steinssonar sviðsstjóra tæknisviðs Norðurorku. Starfssvæði Norðurorku er Akureyri og nokkur sveitarfélög á norðausturlandi og Norðurorka annast vinnslu og dreifingu á heitu vatni og neysluvatni, dreifingu á raforku, rekstur og uppbyggingu fráveitu. Norðurorka leggur mikla áherslu á verkefnastjórnun í allri starfsemi sinni og hefur byggt upp stjórnkerfi sem uppfylla kröfur alþjóðlegra gæðastaðla.
Við heimsóttum nýja verksmiðju Samherja sem tekin var í notkun á Akureyri haustið 2015. Gestur Geirsson sagði okkur frá starfsemi Samherja og uppbyggingu hinnar nýju verksmiðju, og leiddi skoðunarferð um hana ásamt starfsmönnum sínum. Hér er trúlega um að ræða tæknivæddustu fiskvinnslu í heimi og það er tilkomumikið að sjá hvernig fullkominn tæknibúnaður er notaður til að hámarka nýtingu hráefnisins og lágmarka tíma sem vinnslan tekur þannig að varan er komin í hendur kröfuharðra viðskiptavina fáeinum dögum eftir að fiskurinn er dreginn úr sjó.
Við heimsóttum Slippinn sem er gamalgróið fyrirtæki á Akureyri sem gengið hefur í gegnum erfiða tíma og mörg áföll en horfir nú fram á bjartari tíma. Þeir Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdastjóri og Kristján H. Kristjánsson sögðu okkur frá starfseminni og sýndu okkur aðstöðuna og sögðu okkur m.a. frá ISO9001 vottuðu gæðakerfi fyrirtækisins. Hjá Slippnum snýst allt um verkefni og stjórnun þeirra. Viðskiptavinirnir eru kröfuharðir og til að mæta þörfum þeirra þarf snör viðbrögð, og mikla þekkingu og aðlögunarhæfni.
Við heimsóttum ráðhús Akureyrarbæjar og hlustuðum á þær Kristínu Sóleyju Sigursveinsdóttur verkefnastjóra Akureyrarbæjar og Ingibjörgu Elínu Halldórsdóttur verkefnastjóra Rauða krossins. Þær sögðu okkur frá móttöku flóttamanna frá Sýrlandi sem nú stendur yfir. Verkefnið var undirbúið síðla árs 2015 í mikilli óvissu. Fjórar fjölskyldur frá Sýrlandi komu til Akureyrar 19. janúar og síðan þá hafa Akureyringar tekið höndum saman um að taka vel á móti þeim. Óvissan var mikil, bæði hjá Akureyringunum en ekki síður hjá flóttamönnunum sem lifað höfðu miklar hörmungar í heimalandi sínu og í Líbanon og völdu þann kost að flytja búferlum til þessarar köldu, fjarlægu og fámennu eyju í Atlantshafinu – til að geta byggt upp eðlilegt líf og framtíð. Akureyrarbær og Rauði krossinn hafa tekið höndum saman og sinnt þessu erfiða verkefni af mikilli fagmennsku. Síðasti viðkomustaður okkar var Háskólinn á Akureyri en Eyjólfur Guðmundsson rektor tók á móti okkur og sagði okkur frá stefnu skólans 2012-2017 og stefnumótunarvinnu sem nú stendur yfir. Háskólinn á Akureyri er ótrúlega mikilvæg stofnun í samfélagi sínu og okkur þótti sýnt að með mikla reynslu sína og þekkingu, en einnig frumlegar hugmyndir og lausnahugsun, er Eyjólfur réttur maður á réttum stað – til að leiða skólann í að treysta stöðu sína og skapa nýjar stoðir undir starfsemina til framtíðar.

Í MPM námi er áhersla lögð á að halda góðum tengslum við atvinnulífið og mannlífið, á landsbyggðinni og á höfuðborginni. Vorferðin árlega út á land er mikilvægur þáttur í náminu.
Við vorum snortin af frábærum móttökum á Akureyri, frásögnum og viðhorfum gestgjafa okkar og færum við þeim öllum okkar bestu þakkir fyrir móttökurnar.
Áður hefur verið ferðast um á austurlandi, norðurlandi, á Reykjanesi, á vesturlandi, á suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Meðal margra frábærra gestgjafa í vorferðum fyrri ára hafa verið Landsvirkjun, Fjarðabyggð, Alcoa, Reykjanesbær, HS Orka, Bruggsmiðjan, Landgræðslan, Orkuveitan, Vegagerðin, Siglingastofnun, Vinnslustöðin, Sæferðir, Landmælingar, Kaupfélag Skagfirðinga, Háskólinn á Hólum, Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki, Actavis, Marel, Vísir og Grindavíkurbær.
0 comments on “Frábær vorferð MPM námsins til Akureyrar”