Að koma sjálfbærni á dagskrá í verkefnastjórnun

Í Parísarsamkomulaginu frá 2015 stendur: “Loftslagsbreytingar fela í sér brýna og hugsanlega óafturkræfa ógnun við samfélög manna og jörðina og kalla því á víðtækt samstarf allra landa.” Parísarsamkomulagið er í raun ákall til allra landa að hefjast þegar handa og bregast við þessum ógnunum. Hvað þýðir þetta fyrir þá sem starfa við stjórnun verkefna? Umhverfi verkefna er býsna flókið, þar eru iðulega margir hagsmunaaðilar, margvíslegar skorður og margt sem taka þarf inn í myndina. Hvernig má getum við komið sjálfbærni sem allra fyrst á dagskrá í verkefnum?

Hér skipta viðhorf og atferli einstaklinga mestu máli. Með einföldu líkani félagsvísindamannsins Icek Ajzen má skoða hvernig hafa má áhrif á hegðun fólks. Líkanið samanstendur af þremur þáttum sem saman endurspegla fyrirætlan einstaklings – að hegða sér með tilteknum hætti. Þættirnir þrír eru viðhorf einstaklingsins gagnvart hegðuninni, viðtekin hegðun og loks sú stjórnun sem maður heldur að maður hafi á tiltekinni hegðun. Ef öll skilyrði eru til staðar getur það leitt til ætlunar einstaklings um að hegða sér með tilteknum hætti. Ef sú ætlun er til staðar þá mun fólk haga sér með þeim sama hætti. 
Líkanið er gagnlegt til að skilja hvernig koma mætti sjálfbærni á dagskrá í verkefnastjórnun. Ef litið er á viðhorf verkefnastjóra þá hafa þeir sínar persónulegu skoðanir og viðhorf varðandi sjálfbærni – og þær skoðanir munu hafa áhrif á ætlun þeirra og hegðun. Því betur sem fólk er upplýst, þeim mun líklegra er að það bregðist við. Persónulegt gildismat og siðferðisleg viðmið fólks skipta augljóslega miklu máli í þessu samhengi.
Næst er litið á viðtekna hegðun og þá er ljóst að félagsþrýstingurinn í umhverfi verkefnastjórans hefur töluverð áhrif á hegðun hans. Þrýstingurinn getur verið jákvæður – örvað umræðu um sjálfbærni – eða neikvæður og hindrað slíka umræðu. Dæmi um slíkan þrýsting úr umhverfinu er frá eiganda eða bakhjarli verkefnisins. Nú hefur sú þróun verið áberandi að vaxandi fjöldi fyrirtækja setur sér stefnu varandi sjálfbærni en þá styrkist grundvöllur fyrir uppbyggilegri umræðu um sjálfbærni og þetta ætti að auðvelda verkefnastjórum að taka sjálfbærni inn í myndina í verkefnum sínum. Ýmsir aðrir hagsmunaaðilar hafa einnig áhrif, margskonar þrýstirhópar, stjórnvöld, að ógleymdum áhugamannafélögum um verkefnastjórnun, eins og Verkefnastjórnunarfélagi Íslands og IPMA. Til dæmis má nefna að siðareglur sem slík félög geta skilgreint og félagsmenn þeirra undirgangast. Slíkar siðareglur geta haft mikið að segja og mótað umræðuna um sjálfbærni.
Að lokum þarf að skoða þá stjórn sem verkefnastjóri telur sig hafa á atferli eða hegðun. Hugsanlega telur hann sig ekki geta haft mikil áhrif það hvort sjálfbærni sé tekin inn í myndina eða ekki. Eitt vandamál hér er að hugtakagrunnar um verkefnastjórnun hafa ekki tekið af tvímæli um það hvað sjálfbærni þýðir í samhengi verkefnastjórnunar en þetta er þó að breytast, til dæmis með fjórðu útgáfu hugtakagrunns IPMA.
Verkefnastjórar ættu að horfast í augu við það að þeir, ásamt verkefniseigendum, hafa mest áhrif á verkefnin – þar með talið það á það hvernig tekið er á sjálfbærni. Verkefnastjóri getur því opnað á umræðu um sjálfbærni og knúið fram að hún sé tekin inn í myndina í markmiðssetningu og ákvarðanatöku. Líkanið hjálpar okkur að skilja með hvaða hætti við getum stuðlað að því að sjálfbærni sé tekin til umræðu í samhengi við stjórnun verkefna og það vekur okkur líka til vitundar um að verkefnastjórar hafa mjög mikið um þetta að segja og þekking þeirra og viðhorf til sjálfbærni skipta því sköpum.
Grein þeirra Silvius og de Graaf beinir sjónum okkar að því að allir þurfa að taka höndum saman í átaki um að koma sjálfbærni á dagskrá í verkefnastjórnun; verkefnastjórnunarfélögin þurfa að miðla þekkingu og setja siðareglur, verkefniseigendur þurfa að setja stefnu og verkefnastjórar þurfa að vera upplýstir og hafa vilja til góðra verka.
Byggt á grein í nýjasta hefti tímarits Bresku verkefnastjórnunarsamtakanna APM en þar fjalla þeir Gilbert Silvius og Marc de Graaf um það hvernig koma má sjálfbærni á dagská í verkefnastjórnun.

0 comments on “Að koma sjálfbærni á dagskrá í verkefnastjórnun

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: