Sú hefð hefur skapast að MPM námið og Verkefnastjórnunarfélagið halda saman Dag verkefnastjórnunar. Síðdegis kynna útskriftarnemendur í MPM námi lokaverkefnin sín, en fyrir hádegi er málstefna um fagið. Málstefnan 5. maí var vel sótt og heppnaðist sérlega vel. Hún fjallaði um verkefnastjórnun í samtímanum og verkefnastjórnun til framtíðar.
Í upphafi greindi Þór Hauksson formaður VSF frá stefnumótun félagsins og þeir Helgi Þór Ingason og Þórður Víkingur Friðgeirsson frá HR töluðu um stöðu verkefnastjórnunar sem faggreinar á Íslandi og efnahagslegt vægi hennar hér á landi.
Í framhaldinu komu nokkrir gestafyrirlesarar og fluttu örstutt erindi um verkefnastjórnun í mismunandi atvinnugreinum. Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir frá HR talaði um skólaumhverfið og framtíð verkefnastjórnunar, Sveinn Ingi Ólafsson frá Verkís ræddi um verkfræðiumhverfið og verkefnastjórnun, Halldóra Hinriksdóttir frá Landsbankanum talaði um verkefnastjórnun í banka- og fjármálakerfinu, Ósk Sigurðardóttir frá Landspítalanum fjallaði um verkefnastjónun í heilbrigðisgeiranum, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson frá HÍ talaði um verkefnastjónun og nýsköpun, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir frá Íslenska ferðaklasanum greindi frá verkefnastjórnun í ferðaiðnaði, Bjarni Pálsson frá Landsvirkjun talaði um verkefnastjórnun í orkugeiranum og loks talaði Steinunn Halldórsdóttir frá Menntamálaráðuneytinu um stöðu verkefnastjórnunar í opinberri stjórnsýslu.
Þegar þessum örfyrirlestrum var lokið tók við umræðulota á svonefndu “world café” formi. Til grundvallar voru lagðar nokkrar umræðuspurningar og var lotan skipulögð með þeim hætti að allir þátttakendur fengu tækifæri til að fjalla um og leggja sitt af mörkum í umræðu um sérhverja þeirra.
Hér var fjallað um stórar og mikilvægar spurningar. Rætt var hver væru helstu rök með og á móti því að fá starfsheitið verkefnisstjóri lögverndað á Íslandi. Rætt var hverjar væru helstu áskoranir og vandamál sem þátttakendur glíma við í verkefnastjórnun í fyrirtækjum sínum og einnig hvers konar stuðning þátttakendur teldur að íslenskt samfélag hafi þörf fyrir við innleiðingu og notkun verkefnastjórnunar. Fjallað var um hvernig verkefnastjórnun muni þróast á árabilinu 2017 – 2050, rætt var hvort rétt væri að halda úti hugtakagrunni á íslensku um verkefnastjórnun og hverjar ættu að vera megináherslur í starfi Verkefnastjórnunarfélagsins á næstu árum. Loks var rætt hverjar ættu að vera áherslur í skólakerfinu hvað varðar verkefnastjórnun, bæði í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.
Niðurstöður málþingsins voru teknar saman og kynntar í lokin. Mikið af gagnlegum upplýsingum kom fram á þessu málþingi sem sótt var af um 30 áhugamönnum um verkefnastjórnun, auk fyrirlesaranna. Þessar upplýsingar nýtast öllum þátttakendum en ekki síst Verkefnastjórnunarfélaginu og MPM náminu við að móta starfs sitt á komandi misserum. Allir þátttakendur eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag og fleiri world café málstofur verða vafalaust haldnar í samstarfi þessara aðila á komandi árum.
0 comments on “Verkefnastjórnun – hvert stefnir hún á Íslandi?”