Sex sinnum fljótari !

Enn er ég á heimleið eftir ferðalag til lands sem ég hafði aldrei heimsótt áður. Í þetta sinn var það Suður Kórea, en þangað sótti ég ráðstefnu um rannsóknir í verkefnastjórnun. Það var kvíðablandin tilhlökkun að fara þessa ferð og undanfarna mánuði hef ég verið sérstaklega vakandi fyrir fréttum að ástandi mála á Kóreuskaga. Í ferðinni ræddi ég við heimamenn um þetta ástand og upplifun þeirra af því að lifa við stöðuga ógn, kannski skrifa ég bloggpistil um það síðar. Kvíðinn vék þó fyrir tilhlökkun að heimsækja þetta fjarlæga land. Það blasir við að Suður Kóreumenn kunna að skipuleggja og þeir ná miklum árangri í viðskiptum og íþróttum; árið 2002 héldu þeir heimsmeistarmót í knattspyrnu og þeir halda vetrarólympíuleikana 2018.

 Ráðstefnan var haldin í borginni Incheon í nágrenni Seoul, en við þá borg er alþjóðaflugvöllur landsins kenndur. 21,4 km brú tengir borgina við landsvæði sem var að mestu óbyggt fyrir einungis átta árum, en byggt hefur verið upp af ótrúlegum krafti með miklum skýjakljúfum. Suður Kóreumenn kunna svo sannarlega að koma hlutum í verk og allir þekkja hina öflugu iðnaðarmaskínu í Suður Kóreu. Heimamaður tjáði mér að þetta væri að þakka stefnumótandi ákvörðunum af hálfu stjórnvalda sem teknar voru fyrir um 30 árum. Þar var mörkuð skýr stefna og henni fylgt eftir af festu æ síðan. Kannski má segja að Suður Kóreumenn séu orðnir fórnarlömb eigin velgengni; velmegun er mikil, verðlag er hátt og vextir lágir, auðug millistéttin fjárfestir í mannvirkjum og það vakti athygli mína að stórhýsin nýju í Incheon virtust fremur tómleg og fátt fólk þar á ferli. En það er heldur ekki tjaldað til einnar nætur, hér er um að ræða það sem fjármálamenn myndu kalla “þolinmótt fjármagn” því húsin fyllast fyrr en síðar enda byggð á einu þéttbýlasta svæði jarðar. Það er líka til marks um kraftinn í Suður Kóreumönnum að þeir stofnuðu landsfélag í verkefnastjórnun og fengu aðild að IPMA, Alþjóðasamtökum verkefnastjórnunarfélaga, á einungis 6 mánuðum.

Mér er tjáð að þetta taki meðalþjóðir um 3 ár. Það er líka eftirtektarvert að Suður Kóreumenn eiga í raun lítil eða engin hráefni, þeir eru háðir innflutningi hrávöru en velmegun þeirra byggir á þekkingu og getu þeirra til að umbreyta hrávörunni í eftirsóttar iðnaðarvörur sem seldar er út um allan heim. Stefnufestan og getan til að koma hlutum í verk er vafalaust stór áhrifaþáttur í velgengninni. En ég var líka snortinn af því að sýn þeirra á verkefni virðist vera sú að þau snúist um fólk, tilfinningar þess og væntingar og að tryggja hagsmuni núverandi og komandi kynslóða. Þetta er einmitt sú sýn sem fagið ætti að leggja meiri áherslu á.

0 comments on “Sex sinnum fljótari !

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: