Að brúa, eða brúa ekki….

Á ferð minni til Suður Kóreu fyrir skemmstu fékk ég ítarlega kynningu á verkefni sem fékk hin eftirsóttu “Project Excellence” verðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga (IPMA) árið 2015.

Hér er um að ræða Incheon brúnna, sem tengir saman stórborgina Incheon og Yeongjong eyju, hvar alþjóðaflugvöllurinn Incheon er staðsettur. Brúin var tekin í notkun 2009 og þá hófst strax gríðarleg uppbygging nálægt brúarsporðunum og nú, einungis átta árum síðar, hefur ótrúleg umbreyting átt sér þar stað. Suður Kórea er afar þéttbýl og þar byggja menn skýjakljúfa og margir slíkir hafa verið byggðir á þessu svæði á stuttum tíma.

Svo vill til að hugsuðurinn á bakvið þetta brúarverkefni er mikils metinn bakhjarl verkefnastjórnunar í Suður Kóreu, hann stjórnarformaður fyrirtækisins sem byggði og rekur brúnna. 
Þessi merkilegi maður heitir Soo-hong Kim (á myndinni er hann á milli greinarhöfundar og Dr. Hauks Inga Jónassonar) og fékk ég tækifæri til að spjalla við hann. Fram kom fram að hann er ættaður frá svæðinu og afi hans rak ferjur sem sigldu milli Yeongjong og meginlandsins. Brú yfir sundið var draumur afans, og hún varð einnig draumur afadrengsins – sem lét drauminn rætast. Við fyrstu sýn virðist sem hér sé um að ræða tiltölulega einfalt framkvæmdaverkefni, enda þótt brúin sé löng eða um 21 km. En við nánari skoðun sést að verkefnið hefur mjög marga fleti og við allan undirbúning og framkvæmd þess var kappkostað að fara fram í sátt við umhverfið, gæta jafnvægis og passa hagsmuni fólksins sem býr í nærsamfélaginu, og huga að því að öllum umhverfissjónarmiðum væri fullnægt. Þessar áherslur eru í góðu samræmi við nokkra meginþætti Project Excellence líkans IPMA. 
Líkanið skiptist í þrjár víddir eins og myndin ber með sér (myndin er úr nýrri bók sem ber heitið Afburðastjórnun og er eftir Agnesi Hólm Gunnarsdóttur MSc í iðnaðarverkfræði og undirritaðan). Fyrsta víddin snýst um fólkið sem tekur þátt í verkefninu og verður fyrir áhrifum af því, og grunntilgang verkefnisins. Önnur víddin snýst um sjálfa stjórnun og framkvæmd verkefnisins, og aðföngin til verkefnisins. Þriðja víddin snýst svo um útkomu verkefnisins, hvaða áhrif það hafði.
Ég tók að gamni ljósmynd af einni glærunni sem sýnd var á kynningu um þetta verkefni. Hér má sjá samanburð á Incheon brúnni (21 km) og Eyrarsundsbrúnni milli Danmerkur og Svíþjóðar (16 km). Samanburðurinn er kannski ekki að öllu leyti sanngjarn en hann er áhugaverður. Byggingartíminn var sambærilegur, kostnaðurinn við Incheon var 50% af kostnaði við Eyrarsundbrúnna, brúartollurinn er 3,5 evrur á Incheon brúnni en 35 evrur á Eyrarsundbrúnni. Áætlaður fjárhagslegur samfélagslegur ávinningur af Incheon brúnni á 6 árum er 220 milljarðar evra, en sambærileg tala fyrir Eyrarsundsbrúnna er 11 milljarðar evra á 10 árum. Frumkvöðullinn tjáði mér að brúartollurinn mun falla niður í náinni framtíð. Fjárfestar fá ásættanlega ávöxtun á fjármagn sitt í gegnum þátttöku í hinni gríðarlegu uppbyggingu Yeongjong eyju, og öðrum svæðum sem hafa blómstrað eftir að brúin var tekin í notkun.

En hvað geta Íslendingar lært af þessu? Ekki var laust við að hugurinn hvarflaði að blessaðri Sundabrautinni sem verið hefur í umræðunni heima í tvo áratugi eða meira. Ég veit ekki hve oft það verkefni hefur verið til umræðu, hve margar skýrslur hafa verið skrifaðar og hve miklu hefur verið varið í fýsileikaathuganir og forskoðanir. Ég veit svei mér ekki hvar þetta verkefni er statt í kerfinu nú um stundir. En ég trúi því að Sundabrautin sé gott verkefni sem gæti haft mikil áhrif á Íslandi, rétt eins og Incheon brúin hafði í Suður Kóreu. Vissulega er um að ræða dýra framkvæmd en hvað með þjóðhagslegan sparnað af styttingu leiða og öll sóknarfærin sem skapast þegar til verður verðmætt byggingarland við brúarsporðinn og þegar álag minnkar af Vesturlandsvegi og ný tækifæri opnast til uppbyggingar milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og allt upp á Kjalarnes? Þurfum við ekki að hætta að rífast um keisarans skegg, taka höndum saman og horfa til framtíðar. Framsýni frumkvöðullinn Soo-hong Kim kvaðst meira en til í að aðstoða okkur með ráðum og dáð. Fyrsta skrefið væri kannski að fá hann til landsins til að segja okkur frá því hvernig draumurinn um Incheon brúnna varð að veruleika á skömmum tíma, og þeim gríðarlegu áhrifum sem Incheon brúin hefur haft í Suður Kóreu?

0 comments on “Að brúa, eða brúa ekki….

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: