Ferðast til Kóreu, sunnan 38. breiddargráðu

Ég velti því fyrir mér vikum saman hvort ég ætti að taka áhættuna og ferðast til Suður Kóreu á 5. rannsóknaráðstefnu IPMA – Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga, eða hvort ég ætti að taka örugga kostinn og halda mig heima. Daglega sperrti ég eyrun við fréttum af ástandi mála á Kóreuskaga og drakk í mig fréttaskýringar á CNN og BBC um eldflaugatilaunir, tilraunasprengingar og hnútukast þjóðarleiðtoga. Ég var virkilega að meta hættuna á að allt færi úr böndum á meðan ég væri staddur þar ytra. Ég veit að ég var ekki einn um þetta því eitthvað var um að þátttakendur hættu við þátttöku í ráðstefnunni á síðustu stundu.
Þegar ég lenti á alþjóðaflugvellinum í Incheon, og ók sem leið lá á ráðstefnustaðinn blasti við mér þjóðfélag í uppbyggingu, mikill fjöldi bíla, fjölmörg háhýsi og öflugir samgönguinnviðir. Ósköp svipað og í mörgum löndum sem ég hef heimsótt í Asíu, Ameríku og Evrópu. Allt var mjög vestrænt, líka tónlistin, og það þurfti að hafa svolítið fyrir því að kafa undir yfirborðið og upplifa eitthvað ekta austurlenskt. Á ráðstefnunni var töluvert af heimamönnum og gafst gott tækifæri til að spjalla við þá, auk þess sem farið var í vettvangsferð og ekið um höfuðborgina Seoul hvar innsýn fékkst í menningu og sögu Suður Kóreu. Heimamenn voru býsna rólegir og kipptu sér ekki mikið upp við fréttaumfjöllun um ástandið á Kóreuskaga. Þeir bentu á að stóru fréttaveiturnar nærðust á óvissunni og því að segja fréttir af “púðurtunnunni” á Kóreuskaga; sjaldan kæmu fréttir í heimspressunni af öllu því jákvæða sem er í gangi í Suður Kóreu, en fréttamyndir eru þess í stað undantekningalítið teknar af hlutlausa svæðinu á landmærum Norður og Suður Kóreu. Einnig sögðu þeir að útlokað væri að stríðsátök fengju að brjótast út á Kóreuskaga því í því myndi felast upphaf þriðju heimsstyrjaldar og málsaðilar væru allir meðvitaðir um að þetta mætti alls ekki gerast.

Lífið gengur því sinn vanagang í Suður Kóreu frá degi til dags, og heimamenn í Incheon létu sér í léttu rúmi liggja að landamærin við Norður Kóreu eru einungis um 60 km fyrir norðan borgina. Suður Kóreumenn töluðu af hreinskilni um ástandið og ég áttaði mig á því að þegar tveir deila liggur sökin sjaldnast einungis hjá öðrum aðilanum. Í lok seinni heimstyrjaldar var Kórueskaga skipt upp í hernámssvæði Sovétmanna og Bandaríkjamanna á 38. breiddargráðu. Ætlunin var að sameina svæðin en það tókst ekki og Kóreustríðið í framhaldi af þessu snérist um átök milli Norður Kóreu manna studdir af Kínverjum og Sovétmönnum og Suður Kóreumanna sem nutu einkum stuðnings Bandaríkjamanna. Þessi styrjöld var mjög hörð og grimmileg og stríðsglæpir voru framdir á báða bóga. Mörg sár þessarar styrjaldar hafa ekki gróið og leiðtogar Norður Kóreu líta svo á að styrjöldinni hafi aldrei formlega lokið. Gert var vopnahlé í júlí 1953 og fljótlega upphófst gríðarleg uppbygging í Suður Kóreu þar sem áhrif Bandaríkjamanna og Japana voru mikil. Engin slík uppbygging varð í Norður Kóreu. Þar er gríðarleg fátækt og einangrunarstefna ráðamanna gerir illt verra og þegnunum er haldið í hræðilegri gildru grimmdar og vonleysis og úr sambandi við umheiminn. Umfang þjóðarframleiðslu í Norður Kóreu er svo lítið að það mælist vart í samanburði við umfang þjóðarframleiðslunnar í Suður Kóreu. Heimamenn tjáðu mér að allir vissu að á endanum þyrftu málsaðilar að setjast niður og semja um varanlegan frið og varða leiðina til framtíðar. Leiðtogar Norður Kóreu vilja styrkja stöðu sína sem allra mest áður en að þessum viðræðum kemur. Þeir telja að þróun kjarnavopna sé mikilvægur liður í þessu, en einnig liggur mjög praktísk ástæða að baki áherslu Norður Kóreumanna á þróun kjarnavopna. Þeir eru með gríðarstóran her undir vopnum og kostaðarsama hervél og hafa vart efni á að halda henni úti. Það mun vera mun ódýrara að þróa og smíða nokkrar kjarnorkusprengjur og eldflaugar – sem hafa sama og meiri fælingarmátt en hefðubundin stríðstól. Heimamenn í Suður Kóru sögðu mér að þó leiðtogi Norður Kóreu væri vafalaust illmenni og fantur væri það fjarri lagi að hann væri vitfirringur, hann væri vel upplýstur menntamaður sem vissi nákvæmlega hvað hann væri að gera.
Það er alltaf gott að koma heim eftir langt ferðalag. En ferð mín til Suður Kóreu var á allan hátt ánægjuleg, ég naut gestrisni heimamanna og hélt til baka fróðari og reynslunni ríkari. Ég er því feginn því að ég tók sénsinn og ferðaðist til þessa fjarlæga lands.

0 comments on “Ferðast til Kóreu, sunnan 38. breiddargráðu

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: