Einhver stærsta fagráðstefna í heimi á sviði stjórnunar er Euram eða „European Academy of Management.“ Þessa árlegu ráðstefnu sækja að jafnaði um 1000 manns víðsvegar að úr heinminum, en hún er þó alltaf haldin í Evrópu. Hún fór fram í sumarið 2017 og á næsta ári fer hún fram í Portúgal. En þann 19. júní 2018 setti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ráðstefnuna í Reykjavík. Metfjöldi þátttakenda sótti ráðstefnuna á Íslandi eða 1700 manns, og kynntar voru 1200 rannsóknir innan ólíkra sviða viðskiptafræði og stjórnunar. Það var viðskiptafræðideild sem stóð fyrir ráðstefnunni og hún fór fram í húsakynnum Háskóla Íslands og tók yfir margar byggingar á háskólasvæðinu, enda er þetta ein af stærri ráðstefnum sem haldnar hafa verið á Íslandi.
Engin leið er að gera grein fyrir þeim gríðarlega fjölda fræðigreina sem fjallað var um á þessari ráðstefnu í stuttum pistil, en einn af mörgum straumum hennar er tileinkaður stjórnun verkefna. Því voru samankomnir á Íslandi margir fræðimenn í verkefnastjórnun víðsvegar að úr heiminum, virtir vísindamenn frá háskólum í Norður Ameríku, Ástralíu, Afríku, Asíu og svo auðvitað Evrópu. Formleg opnun þessa hluta Euram fór fram að morgni 20. júní og það var Ólafur Þór Hersisson arkitekt sem hélt erindi og sagði frá byggingu hins nýja Landspítala. Þetta er einmitt stórt og afar flókið verkefni og mjög áhugavert sem slíkt, enda var gerður góður rómur að framsögu Ólafs.
Að þessu loknu tóku við erindi ritstjóra þriggja mikilvægra fagtímarita í verkefnastjórnun, þetta voru þau Martina Huemenn ritstjóri IJPM (International Journal of Project Management), Ralf Müller ritstjóri PMJ (Project Management Journal) og Natalie Drouin ritstjóri International Journal of Managing Projects in Business (IJMPB). Öll hafa þessi tímarit ólíkar áherslur og ritstjórarnir greindu stuttlega frá þessum áherslum, en færðu einnig fréttir af því hvernig tímaritin hafa orðið betri og virtari með tímanum, með því að betur er haldið utan um ferli ritrýningar, og birtar greinar verða sífellt sterkari og til þeirra er vitnað í síauknum mæli. IJPM er virtasta tímaritið og áherslur þess hafa færst frá því að horfa á einstök verkefni yfir í að horfa á fyrirtækin og verkefni í samhengi þeirra. PMJ er einnig afar virt og vill styrkja fræðilegar undirstöður verkefnastjórnunar. IJMPB vill einnig birta fræðilegar rannsóknir, stuðla að fræðilegri þróun verkefnastjórnunar og leggja sérstaka áherslu á nýsköpun og nýjar hugmyndir sem tengjast faginu.
Alls voru fluttir hátt í 60 fyrirlestra um verkefnastjórnun og skipust þeir í nokkur meginþemu. Til dæmis stjórnun alþjóðlegra verkefna og þróun þekkingar er þeim trengist. Fjallað var um „action research,“ rannsóknaraðferðir þar sem reynt er að leysa aðsteðjandi vandamál og þekkingu er oft aflað með því að framkvæma eða framkalla breytingu og fylgjast með árangri eða útkomu. Risastór verkefni (mega projects) voru til sérstakrar skoðunar og einnig verkefnateymi, forysta og samskipti, stjórnun verkefnaskráa og samspil verkefnastjórnunar og nýsköpunar og frumkvöðlastarfs, sem og samspil verkefnastjórnunar og stefnumiðaðrar stjórnunar. Haldin var áhugaverð vinnustofa þar sem fjallað var um það að velja sér vekrefnastjórnun sem starfsferil. Þetta er viðfangsefni sem þarf að beina sjónum að í heimi þar sem stöðugt færist í vöxt að fyrirtæki og stofnanir gerist verkefnamiðuð.
Ég mátti hafa mig allan við að ná yfirsýn yfir allt sem hér var í boði, en ekki er laust við að það hafi valdið valkvíða að velja á milli áhugaverðra fyrirlestra, ekki bara á sviði verkefnastjórnunar heldur á öllum mögulegum fræðastviðum stjórnunar á þessari risastóru ráðstefnu. Ég lét eftir mér að sækja eina fyrirlestraröð sem ekkert hafði með verkefnastjórnun að gera, en vakti athygli mína í ráðstefnuskrá. Sú fjallaði um óhefðubundnar kennsluaðferðir á háskólastigi og var ótrúlega upplýsandi og skemmtileg.
Ég hafði annars tvö formleg hlutverk á þessari ráðstefnu. Annars vegar flutti ég erindi um reynslu mína af því að kenna námskeiðið Raunhæft verkefni í MPM námi um árabil, þar sem nemendur vinna að undirbúningi, áætlanagerð og framkvæmd raunverulegs verkefnis með samfélagslega skírskotun. Nánar tiltekið var hér til skoðunar hvort það skipti máli fyrir hvatningu nemenda að leggja sig fram, að verkefnin þeirra séu á einhvern hátt að skila einhverju jákvæðu til samfélagsins. Hitt hlutverk mitt á ráðstefnunni var að vera fulltrúi IPMA, Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga, við afhendingu tveggja verðlauna fyrir bestu fræðigreinar á sviði verkefnastjórnunar sem kynntar voru á ráðstefnunni. Að þessu sinni voru nemendaverðlaun ráðstefnunnar veitt Roya Derakhshanalavijeh frá Íran fyrir rannsóknina “How Local Community Perceives Project Organization’s Activities? A Step towards Psychological Aspects of Stakeholder Management.“ Almenn verðlaun fyrir bestu grein um verkefnastjórnun voru veitt rannsóknarteymi frá Ástralíu, þeim Lynn Crawford, Erica French, Beverley Lloyd-Walkter og heiti rannsóknar þeirra er “Crafting Work for a Projectified Future.“
Euram ráðstefnan var vel skipulögð og hún var haldin af miklum myndarskap í húsakynnum Háskóla Íslands. Það er gaman að taka þátt í og upplifa á Íslandi svo stóra og umfangsmikla ráðstefnu í hæsta gæðaflokki, bæði faglega og hvað varðar alla umgjörð.
0 comments on “Risastór fagráðstefna um stjórnun á Íslandi”