Við þennan lestur runnu á okkur tvær grímur og við veltum því fyrir okkur um stund að láta bara duga að berja staðinn augum, taka túristamynd og heimsækja svo kaffihús sem fengi lofsamlegri dóma. En við umhugsun vorum við sammála að slíkur aumingjagangur væri ekki réttlætanlegur, auðvitað skyldi staðurinn njóta vafans og við yrðum sjálf að dæma Café Liriko á okkar forsendum – komin langveg í pílagrímsför á þennan helga stað. Tilhlökkunin var kvíðablandin er við nálguðumst götuhornið þar sem Café Liriko hafði staðið. En viti menn. Þar var ekkert kaffihús. Þess í stað virtist vera komin einhverskonar djússjoppa, “Fruit factory,” eða álíka. Ég knúði dyra til að spyrjast fyrir um þetta. Mér var bent á ráðsetta enskumælandi stúlku sem starfaði við appelsínukreistingar af miklu kappi. “Jú, gamla kaffihúsið,” sagði hún. “Þeir hættu fyrir ári síðan” – og hún brosti fallega til mín um leið og hún kreisti appelsínu.
Cafe Liriko
Sagt er að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina meiri. Hér er trúlega vísað til fjarlægðar í tíma og rúmi og ég rifaði þetta upp fyrir skemmstu þegar ég hugsaði um kaffihús í Palma, höfuðborg Mallorca. Það heitir því skáldlega nafni Café Liriko og það spilaði lykilhlutverk í texta sem ég samdi þegar ég var þar á ferð í ágúst 2008. Á afar sólríkum og heitum degi horfðist ég í augu við dráttarklár í miðborg Palma sem dró kerru með túrista. Ég settist niður á nálægu kaffihúsi og til varð texti um lífshlaup þessa hests, eins og ég gat best ímyndað mér það; lífslaup sem lengst af hafði verið heldur erfitt. Mér fannst sumsé sem hesturinn segði mér ævisögu sína í þessu snögga augnatilliti, og endaði hún á þeim spádómi að hesturinn myndi brátt enda ævi sína sem nautagúllas í kjötsúpu á veitingahúsinu Café Lirico, hvar ég sat og sötraði kaffi um leið og ég hripaði niður þessa meintu ævisögu. Textinn rataði svo á sólóplötu mína Gamla hverfið, sem kom út vorið 2013.
Við hjónin ákváðum að fara í pílagrímsför til Palma og berja þar augum þetta stórmerka kaffihús, ef vera kynni að það væri enn á sínum stað. Til að undirbúa þessa för kíkti ég á TripAdvisor, svona til að fá heimilisfangið á hreint. Ekki gat ég annað séð en að Café Liriko væri enn á sínum stað. Lesa mátti allmargar umsagnir og þær voru æði misjafnar. Mér fannst furðu sæta að af rúmlega sexþúsund veitingahúsum á Mallorca var Café Liriko í sæti númer fimmþúsund. Skástu umsagnir sem lesa mátti snéru að því að Café Liriko væri klassískt kaffihús, þetta væri einn af fáum börum í Palma þar sem allt væri eins og alltaf hefði verið. En svo kárnaði gamanið þegar ég las áfram. “Forðist þennan stað, skapillt þjónustufólk og maturinn kemur aldrei.” Og enn harðnaði á dalnum: “Ef þú er fyrir það að láta taka þig sápulaust í afturendann, ef þú vilt ruddaskap og meðalmennsku, þá er þetta eitthvað fyrir þig.” Og enn var botninum ekki náð; “Algerlega fáranlega hrikalegt” – var síðasta umsögnin sem ég las áður en ég slökkti á TripAvisor.
Þannig fór um sjóferð þá. Það renna um huga minn vangaveltur fallvaltleika tilverunnar, “allt er í heiminum hverfult” – eins og segir í kvæðinu. Miðað við umsagnirnar á Trip Advisor hefur stund hins fegursta frama Café Liriko runnið upp löngu fyrir daga Trip Advisor. Kannski er þetta bara hið besta mál. Appelsínudjús er trúlega mun hollari en rótsterkt kaffi, eða gúllassúpa úr meintu hrossaketi.
0 comments on “Cafe Liriko”