Þarf þetta að vera svona?

Við höldum fámennan þjóðfund á Þingvöllum sem fer 80% yfir kostnaðaráætlun. Við gröfum jarðgöng við Húsavík fyrir umtalsvert meiri fjármuni en þau áttu að kosta, og þegar þau eru tilbúin veit enginn hver á að reka göngin. Við endurgerum bragga í Nauthólsvík, kostnaður við hann fer yfir 400 milljónir þegar fjárhagsáætlun hljóðaði upp á 150 milljónir. 
Þetta eru fáein dæmi úr umræðunni á Íslandi haustið 2018. Menn klóra sér í höfðinu og spyrja hvernig á þessu standi. Fátt verður um svör en sumir segja, “þetta er nú bara svona” eða “öll verkefni fara yfir kostnaðaráætlun” eða “það er bara ekki hægt að gera raunhæfar kostnaðaráætlanir.”
Slík svör eiga sér enga stoð – þau eru þvættingur. Verkefnastjórnun er faggrein, stundaðar eru rannsóknir víða um heim og þekkingin er þróuð. Þekking og reynsla er staðfest með opinberum vottunum og fagið er kennt í háskólum um allan heim, á Íslandi má læra verkefnastjórnun í tveimur háskólum. Við vitum hvar vandamálin liggja og við reynum að læra af mistökum og bæta verklag og aðferðir. Því fer víðs fjarri að það sé séríslenskt fyrirbæri að opinber verkefni fari út af sporinu. Hið íslenska vandamál er kerfislægt og felst í algerum skorti á svonefndri verkefnastjórnsýslu.
Verkefnastjórnsýsla hefur verið áberandi viðfangsefni í rannsóknum um 20 ára skeið og þekking á þessu sviði telst reynd. Ýmis lönd sem við berum okkur saman við hafa nýtt þessa þekkingu til að stórbæta ástandið þegar um er að ræða stór og umfangsmikil opinber verkefni. Í sinni einföldustu mynd snýst þetta um að skilgreina kröfur til áætlanagerðar og áhættugreininga þegar um er að ræða tillögur um fjárfrek opinber verkefni. Verkefnishugmyndir fara í gegnum reglulega rýni á meðan þær eru þróaðar, og ef áætlanagerð er ófullnægjandi fá þær ekki brautargengi. Síðast en ekki síst er upplýsingum um verkefni safnað, bæði úr undirbúningi þeirra, framkvæmd verkefna sem ráðist er í, og fylgst er með því hvort niðurstöður verkefnanna skila tilætluðum árangri. Slíkar upplýsingar eru lykillinn að bættri frammistöðu í framtíðarverkefnum.
Nærtækt er að horfa til Noregs, en þar hafa menn innleitt einfalt stjórnkerfi fyrir opinber verkefni sem fara yfir tiltekið fjárhagslegt umfang, og gerðar eru kröfur um að þau séu undirbúin með faglegum hætti, áður en ákvörðun er tekin um frekari fjárútlát. Um þetta hefur náðst sátt í samfélaginu og í pólitíkinni, áætlanir um verkefni eru mun raunhæfari en áður var og ákvarðanir um forgangsröðun í ráðstöfun opinberra fjármuna eru því mun betri. Niðurstaðan er töluverður þjóðhagslegur sparnaður. Í Danmörku og Svíþjóð hafa verið byggð upp áþekk kerfi. Í Hollandi, Quebec fylki í Kanada og Bretlandi er einnig notast við verkefnastjórnsýslu sem hefur sömu grunnmarkmið og sú norska – og hefur skilað góðum árangri – þó stjórnsýslan þar sé heldur flóknari og umfangsmeiri.
Menn skyldu ekki halda að til sé einföld patentlausn á því vandamáli að verkefni fari úr böndum og kosti meira og taki lengri tíma en ráð var fyrir gert. Þetta vandamál hefur alltaf verið til staðar. En með þessu greinarkorni er reynt að benda á að hér má snúa við blaðinu. Þetta sýna dæmin frá Noregi og fleiri löndum, eins og víðtækar rannsóknir bera vott um. Svarið við spurningunni í fyrirsögn þessarar greinar er því “nei – þetta þarf alls ekki að vera svona.” Ef við viljum breyta ástandinu og taka okkur á í ráðstöfun opinberra fjármuna til verkefna, þá þarf ekki annað en að sýna þann vilja í verki og fyrsta skrefið er að byggja upp verkefnastjórnsýslu, til dæmis að hætti frænda okkar í Noregi. 
Að lokum skal þess getið að þingsályktunartillaga um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestingavar samþykkt á Alþingi á vorþingi. Hér er um að ræða tillögu um að byggja upp verkefnastjórnsýslu eins og lýst er í þessari grein. Að tillögunni stóðu þingmenn allra flokka á Alþingi, en málið er nú í meðhöndlun Fjármálaráðuneytisins sem ákvarðar næstu skref.  

0 comments on “Þarf þetta að vera svona?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: