“Ég kenndi þeim”

IMG_7874Ég er kennarasonur. Pabbi kenndi í Hagaskóla næstum alla sína starfsævi og fjöldamargir nutu hans leiðsagnar á þeim áratugum er hann stóð sína kennaraplikt. Mig minnir raunar að hann hafi náð þeim árangri að kenna þremur ættliðum, fyrstu nemendur hans urðu foreldrar nemanda hans og síðar afar og ömmur síðustu nemenda hans. Á tímabili þótti okkur systkinum satt að segja nóg um. Á gangi í Kringlunni eða niðri í bæ var alvanalegt að allskonar fólk gæfi sig á tal við pabba. Við eftirgrennslan um hver hefði þar verið á ferð var viðkvæðið jafnan það sama, “ég kenndi honum/henni” sagði pabbi. Sama viðkvæði var mjög algengt þegar talið barst að fólki sem var að geta sér gott orð í pólitík eða viðskiptalífi.

En nú er ég sjálfur kominn í áþekka stöðu og pabbi. Ég hef að vísu ekki kennt þremur kynslóðum en ég hef enga tölu lengur á öllum nemendum mínum á hartnær 20 ára ferli sem háskólakennari. Og það skemmtilegasta við þetta er að ég hef haldið góðu sambandi við marga af meistaranemendum mínum frá fyrri árum og sumir þeirra eru samstarfsmenn mínir í kennslu og rannsóknum í dag. Það var sérstaklega skemmtileg stund í morgun þegar ég hleypti af stokkunum nýju námskeiði í MPM náminu við Háskólann í Reykjavík. Þetta námskeið er kennt á 4. og síðasta misseri og nefnist Afburðastjórnun – með áherslu á straumlínustjórnun. Fyrri vinnulota þessa námskeiðs er í höndum tveggja fyrrum nemenda minna sem stóðu sig báðir afburðavel í meistaranámi í iðnaðarverkfræði.

agnesAgnes Hólm Gunnarsdóttir var fyrsti meistaranemandi minn við HÍ og varði meistaraprófsritgerð sína vorið 2006. Hún skrifaði um afburðaárangur í rekstri fyrirtækja og á grunni meistaraprófsritgerðar hennar höfum við ritað tvær bækur og kom sú seinni út hjá Forlaginu árið 2017 og nefnist hún einmitt Afburðastjórnun. Agnes starfar í dag sem gæðastjóri Verkís.

annaAnna Hulda Ólafsdóttir var síðasti meistaranemandi minn við HÍ og hún hélt síðan áfram í doktorsnámi við sama skóla og ég var einn af leiðbeinendum hennar. Anna Hulda skrifaði doktorsritgerð um gæðastjórnun í mannvirkjagerð. Hún starfar í dag sem lektor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.

Ég verð að taka fram að frábærir nemendur sem ég leiðbeint í meistaranámi og hafa síðar starfað með mér að kennslu og rannsóknum eru auðvitað miklu fleiri. En mér datt þetta bara í hug í morgun þegar ég kynnti þessa tvo fyrirlesara til leiks, og var afskaplega stoltur og hugsaði til orða pabba míns hér áður fyrr þegar hann sagði “ég kenndi þeim.”

0 comments on ““Ég kenndi þeim”

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: