MPM námið í vorferð á norðausturlandi

Í lok 2. misseris í MPM námi er ætíð farið í vettvangsferð út á land til að heimsækja áhugaverð verkefnadrifin fyrirtæki og skoða verkefni af ýmsu tagi. Vorferðin í MPM2020 hópnum var farin 26. og 27. apríl á norðausturland.

IMG_0343Að morgni föstudagsins 26. apríl var flogið til Akureyrar. Fyrsti áfangastaður var Menningarhúsið Hof, en Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðarstjóri tók á móti okkur, sagði frá byggingarsögu Hofs og gekk með okkur í gegnum tónleika- og ráðstefnusali og nýlegt upptökustúdíó. Hof er mikilvægt hús á Akureyri, bæði fyrir menningu, tónlistarlíf og ferðamannaþjónustu og mannvirkið er svo sannarlega fallegt kennileiti í bænum. Næst lá leiðin í Vaðlaheiðargöng, á útsýnispalli við vesturmunna gangnanna tók Haukur Jónsson deildarstjóri Vegagerðarinnar á móti hópnum og stiklaði á stóru í sögu þessa mikla verkefnis, allt frá undirbúningi til framkvæmdar. Að því loknu var ekið inn í göngin og staldrað við í neyðarrými í miðju fjallinu hvar við fengum að upplifa á eigin skinni þær aðstæður sem ríktu í fjallinu þegar gangagerðarmenn Ósafls unnu við gangnagröftinn í 50°C hitastigi. Þetta var svo sannarlega sterk upplifun. IMG_0361Að þessu loknu var ekið beinustu leið á Mývatn og þar tók á móti okkur Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps. Hann sagði okkur frá helstu viðfangsefnum sínum í starfi sveitarstjórans en þau snúast raunar mörg um viðamikil og flókin verkefni og það langstærsta og mikilvægasta um þessar mundir er fráveitan. Þar þurfti að hugsa út fyrir boxið og leita óhefðbundina lausna í sátt við hagsmunaaðila. Niðurstaðan er einmitt frábær lausn sem leiðir til minni tilkostnaðar og hefur jákvæð umhverfisáhrif til framtíðar.

IMG_0377Á laugardeginum var ekið á Þeistareyki og þar tók á móti okkur Sigurgeir Björn Geirsson staðarverkfræðingur Landsvirkjunar í hinni nýju og glæsilegu gufuaflsvirkjun. Þar eru tvær túrbínur sem samtals geta framleitt 90 MW af rafmagni. Verkefnið er góður vitnisburður um nútímaleg viðmið í verkefnastjórnun, þar sem sérstaklega var passað upp á öryggis- og umhverfismál og allt verkefnið undirbúið og framkvæmt í náinni samvinnu og sátt við hagsmunaaðila. IMG_0392Að þessu loknu lá leið hópsins til Húsavíkur og við hin nýju sjóböð á Húsavíkurhöfða tók Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings á móti okkur og sagði frá þessu verkefni þar sem heitum jarðsjó úr tveimur borholum er dælt í stórglæsilega baðaðstöðu þar hefur verið sett upp af miklum myndarbrag. Eftir erindi sveitastjórans fór allur hópurinn í sjóböðin og upplifði þannig afrakstur þessa verkefnis í fádæma veðurblíðu og naut útsýnis út á Skjálfandaflóann.

Síðasta heimsóknin var á bæjarskrifstofunar á Húsavík þar sem Snæbjörn Sigurðarson framkvæmdastjóri greindi okkur frá viðfangsefnum Eims, sem er samstarfsverkefni orkufyrirtækja og sveitarfélaga á norðausturlandi. Eimur var settur á stofn til að stuðla að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra og Snæbjörn sagði frá mörgum spennandi nýsköpunarverkefnum Eims.

Í MPM náminu er mikil áhersla á að halda tengslum við atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni, jafnt sem í höfuðborginni. Vorferðin er því mikilvægur þáttur í náminu. Segja má að þema þessarar vorferðar hafi verið umhverfismál, jarðhiti og nýting hans. Við vorum að venju mjög heppin með gestgjafa, við hlýddum á fróðleg erindi og fengum höfðinglegar móttökur. Gestgjöfunum færum við okkar bestu þakkir og almættinu þökkum við fyrir aldeilis frábært veður í þessari 14. vorferð MPM námsins.

Áður hefur verið ferðast um á austurlandi, norðurlandi, á Reykjanesi, á vesturlandi, á suðurlandi, í Vestmannaeyjum og á vestfjörðum. Fáein dæmi um gestgjafa í vorferðum fyrri ára eru 3X Skaginn, Strandabyggð, Vegagerðin, Límtré Vírnet, Norðurorka, Akureyrarbær, Samherji, Elkem, Norðurál, Landsvirkjun, Fjarðabyggð, Alcoa, Reykjanesbær, HS Orka, Bruggsmiðjan, Landgræðslan, Orkuveitan, Siglingastofnun, Vinnslustöðin, Sæferðir, Landmælingar, Háskólinn á Hólum, Steinullarverksmiðjan, Actavis, Marel, Vísir og Grindavíkurbær.

 

0 comments on “MPM námið í vorferð á norðausturlandi

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: