Að brún hengiflugsins

– í trúnni á hinn endalausa vöxt!

jordinÍ grunnskóla las ég grein eftir Isaac Asimov. Hann spáði fólksfjölgun mannkyns sem tæki engan endi og að massi mannkyns yrði að lokum á pari við massa jarðar. Ég las þetta með hryllingi og sá jörðina fyrir mér hrynja niður í ginnungagap alheims undan þessum svakalega massa. Það var svo ekki til að bæta sálarástandið að lesa kenningu Thomas Malthus sem snemma á 19. öld hélt því fram að innan fárra ára gæti jörðin ekki brauðfætt mannkynið.

Malthus var full svartsýnn og framtíðarspá Asimov var skáldskapur, hann var að vísu prófessor við háskóla í Boston en frægastur fyrir að skrifa vísindaskáldsögur. En árið 1972 kom út bók í Bandaríkjunum sem hét “Limits to growth.” Í bókinni var fjallað um reiknilíkan sem höfundarnir höfðu þróað, byggt á aðferðafræði sem nefnist “System dynamics.” Í sem stystu máli komust höfundar að þeirri niðurstöðu að ef mannkyn héldi áfram með óbreyttum hætti að ganga á auðlindir jarðar, kæmi að því að þessar auðlindir kláruðust, mengun myndi leggja stór svæði jarðar í eyði og siðmenningin myndi líða undir lok. Eina leiðin væri að horfast í augu við þennan veruleika, meðtaka þá staðreynd að það er ekkert til sem heitir endalaus vöxtur, hætta að miða allt við slíka forsendu og taka þess í stað upp nýja lífshætti í meiri sátt við umhverfið. Með þessu móti mætti milda höggið og komast hjá fyrirsjáanlegu hruni siðmenningarinnar.

limitsEins og gefur að skilja féll boðskapur höfunda “Limits” í grýttan jarðveg í Bandaríkjunum, mekka hins frjálsa hagkerfis þar sem allt gekk út á að vaxa, þróa nýja markaði, selja meira og auðgast meira. Virtir fræðimenn, stjórnmálamenn og fjármálamenn stigu fram, gerðu lítið úr boðskap bókarinnar og hvöttu til þess að hvergi yrði gefið eftir; áfram skyldi vaxið, meira skyldi framleitt og áfram skyldi grætt. Á seinni árum hefur því miður komið í ljós að höfundar “Limits” hafa reynst furðu sannspáir og daglega berast nú fréttir af því að jöklar hopa, dýrategundum fækkar, hitastig hækkar, höfin eru menguð og hægt og sígandi stefnir mannkyn í átt að því hengiflugi sem höfundar “Limits” vöruðu við árið 1972.

Af hverju er ég að skrifa um þetta í Viðskiptablaðið vorið 2019? Nú er sumar í lofti, gróðurinn er að springa út og tími kominn til að hafa það huggulegt, græða á daginn og grilla á kvöldin, eða hvað? Ég hugsa að þetta sé einmitt kjarni vandans, hengiflugið sem hér var vísað til er í senn of fjarlægt og of skelfilegt til að ræða um það. Þess í stað er enn hamrað á því af leiðandi öflum í atvinnulífi í vesturheimi að það sé takmark allra fyrirtækja að vaxa. Þetta sjónarmið heyri ég svo bergmála í skoðunum málsmetandi álitsgjafa, greinahöfunda og í röksemdafærslu sumra nemenda minna. Þetta er ekkert skrýtið, því okkur er tamt að tala um hinn stöðuga vöxt. Umræður um stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum snúast mjög gjarnan um hagvöxt; í þjóðhagsspá síðasta haust spáði Hagstofan 3,8% vexti í landframleiðslu og almennt er talið að best sé að hafa sem mestan hagvöxt. Nýja stóra meginstoðin undir atvinnulífi okkar, ferðamannaiðnaðurinn, byggir á fjölgun ferðamanna, stöðugum vexti sem um skeið var svo mikill að ekki einungis fjölgaði ferðamönnum ár frá ári, heldur var fjölgunin líka að magnast ár frá ári. Önnur meginstoð atvinnulífsins er stóriðja og gríðarleg uppbygging hennar hér hefur meðal annars verið réttlætt með því að það er umhverfisvænna að framleiða ál á Íslandi en í ýmsum öðrum löndum. Í framhaldinu er sagt að álið verði hvort sem er framleitt og þess vegna sé fyrir bestu að framleiða það á Íslandi. Þessi röksemdafærsla byggir á trúnni á að eftirspurn eftir áli vaxi stöðugt, ár frá ári.

OptimismVið sjáum því að hugsanakerfi okkar er mjög litað af þessari trú á hinn endalausa vöxt, og ef við breytum ekki þessu hugsanakerfi mun okkur áfram reka með vaxandi hraða fram að brún hengiflugsins. Enn er ekki of seint að snúa við blaðinu. En þá þurfum við líka heldur betur að breyta áherslunum og láta af hrunadansinum í kringum gullkálfinn. Hér þarf hver og einn að líta í eigin barm, en eina hagkerfið sem vaxa má endalaust er hagkerfi hugans. Hvers kyns vöxtur ætti að byggja á því að nýta betur, draga úr sóun, auka verðmæti og draga úr kostnaði. Lykillinn að slíkum vexti er fræðsla, menntun og þróun þekkingar og því ættum við að efla skólakerfið í landinu á öllum stigum.

Þó ég hafi hér dregið upp heldur dökka mynd af framtíðinni er ég bjartsýnn að eðlisfari og kýs að trúa á getu mannsins til að taka stjórn á örlögum sínum. Margir hafa bent á að heimur fer heilt á litið batnandi, þrátt fyrir að öðru sé stundum haldið fram. Ég ætla því að enda þennan pistil á þeim frasa sem ég fór oft með þegar ég leiddi frábært starfslið Orkuveitu Reykjavíkur á afar erfiðum tímum á árunum 2010-2011, og segja “allt mun vel fara.”

(Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 17. júní 2019)

0 comments on “Að brún hengiflugsins

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: