Það er eitthvað alveg sérstakt við Lissabon, eitthvað sem ég á erfitt með að koma orðum að, eitt er víst; þar fannst mér gott að dvelja með mínum betri helmingi í fáeina daga í lok júní. Erindið var að sækja Euram ráðstefnuna, mikla rannsóknaráðstefna um stjórnun sem haldin er árlega og yfirleitt í Evrópu. Ráðstefnan tók þrjá daga og við höfðum þokkalegan tíma til að ganga um og upplifa borgina.
Ég hafði aldrei komið hingað áður, gerði mér svo sem engar sérstakar væntingar. Kom til Portúgal fyrir 20 árum í sólarferð og á blendnar minningar, en kannski er það einmitt svo að þegar væntingar eru hófstilltar þá verður maður undrandi á jákvæðan hátt. Þessi höfuðborg Portúgal, sem telur um hálfa milljón íbúa, hefur yfir sér eitthvert yfirbragð gleði og umburðarlyndis.
Það var músík á öllum torgum, götulistamenn, einleikarar á selló og fiðlu, hefðbundnir trúbadúar með gítara – allt mögulegt. Og á kvöldin var hægt að fara á veitingastaði, borða ekta portúgalskan mat og hlusta á þessa dásamlegu fado tónlist. Það var Cesaria Evora sem vakti áhuga minn á fado fyrir mörgum árum en það var gaman að upplifa þessa tónlist í öngstrætum Alfama hverfisins, setjast inn á veitingastað og horfa á frábæra söngvara við undirleik gítarsláttumanna syngja úr sér hjartað, því fado þýðir einmitt tilfinning og í fado er sungið um söknuð og eftirsjá og trega og allt kemur beint frá hjartanu.
Maturinn í Lissabon var frábær, við urðum aldrei fyrir vonbrigðum, snæddum á hefðbundnum portúgölskum stöðum, á tapas stöðum, hádegisverðarstöðum í borgarmiðjunni og alltaf var gott að borða, vel útilátið, borið fram með bros á vör og verðlagi stillt í hóf. Vissulega eru hefðbundnar alþjóðlegar verslanir í Lissabon, til dæmis Zara og H&M og Boss og vörurnar kosta það sama og í Berlín eða London. En það er líka hægt að villast í ranghölum gömlu borgahluta Lissabon, kaupa sér heimagerðan hatt eða derhúfu og stinga sér svo inn á hárgreiðslustofu og þiggja klippingu. “Á ég að þora?” spurði ég og Magga sagði “auðvitað.” Og hann var þvílíkur fagmaður þessi portúgalski hárskeri. Hann talaði ekki orð í ensku en vissi alveg hvað ég vildi. Ég held að það hafi aldrei verið nostrað jafn mikið við kollinn á mér. Hann rukkaði 16 evrur og mér þótti það svo vandræðalega lítið að ég laumaði að honum 5 evrum aukalega.
Í þessum rangölum gömlu borgarinnar má því upplifa kyrrðina og gestrisnina, og líka fátæktina. Göturnar eru margar hverjar örmjóar og húsin há. Einar dyr við strætið kunna að vera nýtískulegar og glæsilegar en næstu dyr eru kannski gamlar og úr sér gengnar.
Hér er ekkert stress, almenningssamgöngur afar góðar, neðanjarðarlestakerfi frábært eins og í mörgum borgum Evrópu, og úrval sporvagna og strætisvagna ofanjarðar. Allstaðar er hægt að leigja sér hjól. Hér er sniðugt að leigja rafmagnshjól því Lissabon er hæðótt. Við leigðum hjól einn daginn og hjóluðum eftir strandlengjunni út að Betlehemsturninum, en annan dag keyptum við ferð á rafhjólum með leiðsögumanni sem hjólaði með okkur upp og niður hæðirnar, og stoppaði reglulega og sagði okkur frá. Hann var mjög fróður og sagði okkur frá sögu borgarinnar, allt frá tímum máranna fyrir 1200. Portúgalar urðu gríðarlegt nýlenduveldi, áttu meðal annars Brasílíu, Maká, hluta Indlands og Angóla. Áhrifin af þessu eru augljós í Lissabon og þar má sjá mörg merki um áhrif frá márunum og nýlendum Portúgala, í menningu, arkitektúr og matargerð.
Árið 1755 varð mikill jarðskjálfti í Lissabon og í flóðbylgju sem honum fylgdi lögðust stórir hlutar borgarinnar í rúst. Svæðið næst ánni er því “nýi” hluti borgarinnar og það minnir svolítið á París. Ofar eru eldri hverfin og sumt þar er mjög gamalt; við skoðuðum til dæmis hringleikahús frá tímum Rómarveldis. Leiðsögumaðurinn vildi meina að portúgölum væri eðlislægt að vera umburðarlyndir gagnvart gestum og áhrifum þeirra, viðhorf gagnvart flóttafólki væru til dæmis önnur hér en í sumum öðrum Evrópulöndum. Hann sagði okkur frá endalokum fasismanns í uppreisn 1974. Hann var stoltur af þeirri uppreisn, þegar borgarbúar vöknuðu við það að í útvarpinu var leikið lag sem áður hafði verið bannað, þeir vissu að eitthvað mikilvægt hefði gerst, þustu út á götur og við þeim blöstu hermenn með blóm í byssuhlaupum. Herinn hafði tekið völdin af einræðisherranum og engu blóði var úthellt.
Við gistum á hóteli í meira en 400 ára gömlu húsi. Okkur leist ekki meira en svo á blikuna þegar við þurftum að burðast með töskurnar upp á efstu hæð, en við fengum svo sannarlega umbun erfiðisins þegar við horfðum út um gluggann á litla herberginu okkar, því þar var stórkostlegt útsýni og allt við þetta hótel var eitthvað svo sérstakt og skemmtilegt, ferskur morgunmaturinn, fado tónlistin sem þau rauluðu við í eldhúsinu, píanóleikarinn sem spilaði fyrir gesti í morgunverðarborði á 2. hæð og á hótelbarnum á kvöldin, og starfsmaðurinn í móttökunni sem klæddi sig eins og hefðarmenn gerðu á 18. öld.
Ég bað Möggu að nefna mér lýsingarorð sem henni komu í hug til að lýsa upplifun hennar af hótelinu. Þegar við hugsum málið finnst okkur þessi orð vera ágæt til að lýsa Lissabon, eins og borgin kemur okkur fyrir sjónir. Hún er rómantísk, hlýleg og með mikla sál. Lissabon er borg sem kom okkur mikið á óvart og við ætlum svo sannarlega að heimsækja aftur.
Fròðleg og skemmtilega lýsandi grein bæði um nýlendur Portúgal og áhrifum þess á menningu til dagsins í dag. Skemmtilega lýsandi og fræðandi.
Líkar þetta vel
LikeLike
Pingback: Frábær fagráðstefna um stjórnun – Helgi Thor Ingason