Áður hef ég fjallað um Euram ráðstefnuna sem er ein af stærri ráðstefnum í heimi á sviði fræðilegrar stjórnunar. Hún er haldin árlega og hún er yfirleitt alltaf haldin í Evrópu. Hún fór fram í Reykjavík sumarið 2018 en í dagana 26.-28. júní 2019 fór þessi ráðstefna fram við ISCTE – Instituto Universitário de Lisboa (ISCTE-IUL) í Lissabon í Portúgal.
Metfjöldi þátttakenda sótti ráðstefnuna eða um 1800 manns, og kynntar voru fleiri en 1200 rannsóknir innan ólíkra sviða viðskiptafræði og stjórnunar. Ráðstefnuhaldarar í Lissabon hafa tekið saman stutt en skemmtilegt kynningarmyndband um ráðstefnuna.
Ég ætla mér ekki að reyna að gera grein fyrir þeim gríðarlega fjölda fræðigreina sem fjallað var um á þessari ráðstefnu í stuttum pistil, en einn af mörgum straumum hennar er tileinkaður stjórnun verkefna. Hér komu því saman margir helstu fræðimenn í verkefnastjórnun víðsvegar að úr heiminum, virtir vísindamenn frá háskólum í Evrópu, Norður Ameríku, Ástralíu, Afríku og Asíu.
Ég hlustaði á erindi ritstjóra fjögurra mikilvægra fagtímarita í verkefnastjórnun, þetta voru þau Martina Huemenn ritstjóri IJPM (International Journal of Project Management), Ralf Müller ritstjóri PMJ (Project Management Journal), Natalie Drouin ritstjóri International Journal of Managing Projects in Business (IJMPB) og Young Hoon Kwak ritstjóri Journal of Management in Engineering (JME). Öll hafa þessi tímarit ólíkar áherslur og ritstjórarnir greindu stuttlega frá þeim, en gerðu einnig grein fyrir því hvernig tímaritin hafa orðið betri og virtari með tímanum, hvernig birtar greinar verða sífellt sterkari og hvernig tilvitnunum í þessar greinar fjölgar. IJPM leggur áherslu á að horfa á verkefnafyrirtæki og verkefni í samhengi þeirra. PMJ vill styrkja fræðilegar undirstöður verkefnastjórnunar. IJMPB vill einnig birta fræðilegar rannsóknir, stuðla að fræðilegri þróun verkefnastjórnunar og leggja sérstaka áherslu á nýsköpun og nýjar hugmyndir sem tengjast faginu. JME miðar ritstjórnarstefnu sína einkum við áhugasvið byggingaverkfræðinga.
Alls voru fluttir hátt í 80 fyrirlestrar um verkefnastjórnun og skipust þeir í nokkur meginþemu. Til dæmis stjórnun verkefnaskráa og verkefnastofa, rannsóknaraðferðir (action research), risastór verkefni (major projects), stjórnun mannauðs í verkefnadrifum fyrirtækjum, verkefni í samhengi samfélags, sjálfbærni og hringhagkerfið og verkefnastjórnsýslu – svo fáein dæmi séu tekin.
Það var allt annað auðvelt að velja á milli fyrirlestra því á hverjum tíma voru þrír fyrirlestrar í gangi sem tengust verkefnastjórnun, og tugir fyrirlestra sem ekkert höfðu með verkefnastjórnun að gera. Ég lét eftir mér að sækja eina fyrirlestraröð sem ekkert hafði með verkefnastjórnun að gera, en vakti athygli mína í ráðstefnuskrá. Sú fjallaði um straumlínustjórnun (lean) í heilbrigðiskerfinu og var bæði upplýsandi og skemmtileg.
Ég hafði annars tvö formleg hlutverk á þessari ráðstefnu. Annars vegar flutti ég erindi um reynslu mína af því að kenna námskeiðið Raunhæft verkefni í MPM námi um árabil, þar sem nemendur vinna að undirbúningi, áætlanagerð og framkvæmd raunverulegs verkefnis með samfélagslega skírskotun. Nánar tiltekið var hér til skoðunar hvort það skipti máli fyrir hvatningu nemenda að leggja sig fram, að verkefnin þeirra séu á einhvern hátt að skila einhverju jákvæðu til samfélagsins. Þessa grein skrifaði ég með félaga mínum Hauki Inga Jónassyni. Raunar var ég meðhöfundur á annarri grein sem ég skrifaði með Yvonne Schoper prófessor í Berlín. Yvonne kynnti greinina sem fjallaði um hvernig nota mætti aðferðafræði kvikra kerfislíkana til að kortleggja hæfni- og færniþætti í verkefnastjórnun og ýmsar breytur sem hafa áhrif á stöðu samfélaga hvað varðar verkefnastjórnun. Hitt hlutverk mitt var að vera fundarstjóri í tiltekinni lotu ráðstefnunnar sem fjallaði um rannsóknir, forystu og stjórnsýslu.
Að venju voru verðlaun veitt fyrir bestu ráðstefnugreinarnar á sviði verkefnastjórnunar. Verðlaun fyrir bestu rannsóknargrein nemanda voru veitt Carsten Kaufmann frá Technische Universität Darmstadt fyrir greinina Does project management matter? The causal impact of project management effort on project success. Almenn verðlaun fyrir bestu grein um verkefnastjórnun voru veitt Alfons Marrewijk og Nick Dessing frá VU University in Amsterdam fyrir greinina Negotiated reciprocity in engaged scholarship studies: safeguarding academic and project intentions.
Euram ráðstefnan var vel skipulögð og hún var haldin af miklum myndarskap í þessari frábæru borg Lissabon. Ég var svo heillaður af Lissabon að ég skrifaði sérstakan pistil um heimsókn mína til borgarinnar. Það er óhætt að mæla með Euram ráðstefnunni fyrir alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér stjórnun sem fræðigrein og það má hlakka til komandi Euram ráðstefna, í Dublin 2020, í Montreal 2021 og í Zürich 2022.
0 comments on “Frábær fagráðstefna um stjórnun”