Ég get ekki stillt mig um að skrifa fáein orð um hinn dásamlega tónlistarklúbb South River Band sem ég hef starfað með í 19 ár. Heldur lítið hefur reyndar farið fyrir starfseminni undanfarin 8 ár eða svo. En nú er lokið áfanga í starfi klúbbsins, sem hófst 2017 þegar við hlustuðum á upptökur af æfingum frá gamalli tíð og uppgötvuðum töluvert af skemmtilegu ófluttu efni, meðal annars eftir Ólaf Þórðarson heitinn, sem var okkar hljómsveitarstjóri. Þetta varð okkur hvatning til að hefja þróun sjöttu hljómplötunnar, til heiðurs okkar fallna meistara, og fylgja henni eftir með tónleikum.
Með því að hljómsveitarmeðlimir dreifast um heiminn og búa ekki bara á Íslandi heldur búa nokkrir í Skandinavíu, þá tók nokkurn tíma að koma þessu öllu heim og saman. Við fjármögnuðum plötuna með því að trúir og tryggir fylgjendur okkar styrktu okkur á því stórkostlega fyrirbæri sem heitir Karolinafund, en platan kom loks út í desember 2018, nú er nýlokið útgáfutónleikum á Kex í Reykjavík og í Deiglunni á Akureyri og platan var plata vikunnar á Rás 2 í vikunni 15.-19. júlí 2019. Af því tilefni var tekinn upp útvarpsþáttur þar sem öll lögin voru flutt og sögurnar á bak við sérhvert lag sagðar. Þessi þáttur mun vera aðgengilegur á vef RÚV um skeið.
Þetta hefur á allan hátt verið hin skemmtilegasta vegferð og við félagarnir erum ánægðir með afraksturinn. Lesa má umsögn um plötuna á vef RÚV og einnig má hlusta á spjall þeirra Andreu Jónsdóttur og Arnars Eggerts Thoroddssen um plötuna í útvarpsþætti 15. júlí (frá 46:50). Okkur þótti vænt um falleg orð um plötuna, ekki síst þá umsögn Andreu að hún fyndi vel fyrir því að platan væri sett saman í minningu Ólafs Þórðarsonar, sem vann jú á RÚV um árabil.
Tónleikarnir voru vel sóttir og heppnuðust vel og því til staðfestingar má sjá stutt myndbrot af síðasta uppklappslagi tóneikanna á Kex í Reykjavík. Þar myndaðist frábær stemning og allur salurinn tók undir með okkur í slagara af gamalli plötu South River Band.
South River Band hefur aldeilis ekki sungið sinn svanasöng með þessu átaki og þó hinar ómetanlegu vikulegu æfingar hjá meistara Ólafi Þórðarsyni í Þingholtunum heyri nú sögunni til, má þess vænta að klúbburinn finni orku og þrek til nýrra tónsmíða og nýrra verkefna á komandi misserum.
0 comments on “Sirkus South River Band”