Dagana 10.-13. október fór fram Arctic Circle ráðstefnan í Hörpu í Reykjavík. Artic Circle er alþjóðlegur vettvangur samræðu og samstarfs um málefni norðurslóða. Dagskrá ráðstefnunnar er aðgengileg á heimasíðu ráðstefnunnar (www.arcticcircle.org). Dagskráin sýnir að ráðstefnan var mjög stór og þátt í henni tóku fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, háskóla, umhverfissamtaka og allra þeirra sem yfirleitt hafa áhuga á þróun mála á norðurslóðum og hvaða áhrif hún hefur á þróun heimsmála. Framsögumenn voru stjórnmálamenn, embættismenn, fræðimenn og stjórnendur – frá löndum í nágrenni við norðurheimskautið en einnig frá fjarlægari löndum. Fjallað var um stjórnmál, samstarf, öryggismál, nýsköpun, skipulagsmál, flutninga, frumbyggja og ferðamennsku – svo örfá dæmi séu tekin. Arctic Circle ráðstefnan var fyrst haldin í Reykjavík haustið 2013, hún hefur verið haldin í árlega upp frá því og hefur öðlast töluvert vægi í alþjóðlegri umræðu um málefni norðurslóða.
Það er mikill heiður að fá tækifæri til að kveða sér hljóðs á þessari ráðstefnu, en sú var raunin með greinarritara sem ásamt félögum í MPM náminu við HR stóð fyrir vinnustofu á Arctic Circle þar sem til skoðunar var ábyrg verkefnastjórnun, sem lykill að árangri í margháttuðum verkefnum sem framundan eru á norðurslóðum.
Titill vinnustofunnar var nokkru afmarkaðri eða “Ábyrg verkefnastjórnun handan við heimskautsbaug” – og til skoðunar var flókið og margslungið virkjanaverkefni á Grænlandi. Þetta er vatnsaflsvirkjunin við Ilulissat, verkefni framkvæmt við afar krefjandi aðstæður og í anda nútímalegra viðmiða um sjálfbærni. Fulltrúar íslenskra fyrirtækja sem leiddu þetta verkefni geindu frá undirbúningi og framkvæmd þess. Þetta voru þeir Gísli H. Guðmundsson frá Ístak og Ægir Jóhannesson frá Verkís. Haukur Ingi Jónasson frá MPM náminu ræddi almennt um fræðileg viðmið varðandi siðfræði og ábyrgð í undirbúningi og stjórnun verkefna. Í lokin var umræða meðal allra fundarmanna þar sem verkefnið á Grænlandi var speglað í þeim almennu viðmiðum sem Haukur Ingi hafði kynnt og ekki er annað að sjá en að verkefnið hafi verið undirbúið og framkvæmt í góðri sátt og jafnvægi við þau viðmið.
Þó eitt tiltekið tilfelli hafi verið til skoðunar á vinnustofunni er umræðan almenn og þessi stóri titill vinnustofunnar var því alls ekki út í bláinn. Óhætt er að halda því fram að nú þurfi að standa fyrir hugarfarsbreytingu, draga fram sameiginlega sýn á stöðu mála, efla samstöðu, sameina krafta, standa fyrir víðtækri stefnumörkun og fylgja stefnu eftir með markvissum hætti um allan heim. Þetta mun ekki takast nema til komi fagleg verkefnastjórnun og því er nauðsynlegt að innleiða sjónarmið sjálfbærni í allri kennslu og þjálfun í stjórnun, og beita faglegri verkefnastjórnun í þeim margháttuðu og tröllvöxnu verkefnum sem framundan eru á norðurslóðum og um heim allan.
Frá vinstri: Karl Andreassen (Ístak), Helgi Þór Ingason (MPM námið), Gísli H. Guðmundsson (Ístak), Ægir Jóhannsson (Verkís), Haukur Ingi Jónasson (MPM) og Íris Hrund Þórarinsdóttir (MPM).
(Byggt á pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu 9. október 2019)
0 comments on “Ábyrg verkefnastjórnun á norðurslóðum á Arctic Circle”