Er hægt að meta gildismat samfélags út frá ástandi kirkjugarða þess?

Það er hefð á aðfangadag að gamla kjarnafjölskyldan fer rúntinn í Fossvogskirkjugarði, kíkir á leiðin hjá afa og ömmu, Dodda frænda, ömmu löngu, Fríðu frænku og Þórarni og Gunnari. Það eru einmitt þessar fjölskyldustundir sem gefa jólunum gildi sitt. Að setjast rétt eina ferðina afturí hjá mömmu – öll þrjú og pabbi frammí og svo keyrir sú gamla okkur niður í Fossvog – það má alveg koma fram að þetta árið var aldursbil okkar í aftursætinu 40-54. Við reynum að vera snemma á ferðinni, á undan umferðinni. Fastir liðir eins og venjulega eru að villast þegar við göngum niður í garðinn. En það verður okkur alltaf til bjargar að við römbum á legsteininn hans Brynleifs Tobíassonar, og þaðan rötum við á leiðið hennar ömmu löngu.

fossv

Mér finnst tíminn alltaf standa svolítið í stað í kirkjugarðinum. Það er ekkert stress. Þó við séum snemma á ferðinni eru fjöldamargir búnir að koma og farnir, og fjöldi fólks er í garðinum. Víða má sjá litla hópa af ungum sem öldnum, að strjúka snjó af legsteinum, kveikja á útikertunum, stundum syngur hópurinn jólalög fyrir afa og ömmu sem komin eru yfir móðuna miklu.

Þessar dýrmætu stundir sameina kynslóðirnar og þær hjálpa okkur að halda í minningar um ástvini sem eru ekki með okkur lengur. Kirkjugarðar eru mikilvægir staðir og það á að leggja metnað í alla umhirðu þeirra og viðhald. Ég held svei mér þá að það sé vitnisburður um gildismat samfélags hvernig haldið er utan um kirkjugarða.

Ég man þá tíð þegar fjölmennir flokkar ungmenna höfðu sumarvinnu við að sinna garðyrkju í kirkjugörðunum í Reykjavík. Þá var metnaður lagður í að allt væri þar snyrtilegt, það var slegið, trjágróður var snyrtur og illgresi var haldið í skefjum til að fólk gæti að minnsta kosti lesið á legsteina látinna ættingja. En svona er þetta ekki á Íslandi 2019 og það finna þeir sem leið eiga um kirkjugarðana, sérstaklega að sumri til. Skýringin er auðfundin. Á heimasíðu Kirkjugarðasambands Íslands skrifaði formaður þess í pistli í mars 2019 að frá árinu 2005 hafa framlög ríkisins til umhirðu og greftunar verið skert gríðarlega og framlag ríkisins er í dag langt undir kostnaði við rekstur kirkjugarða.

Ég veit svei mér ekki af hverju íslenska ríkið hefur stórskert framlög sín til reksturs kirkjugarða frá árinu 2005. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi. Hér drýpur smjör af hverju strái. Okkur verður tíðrætt um arðsemikröfu og hagræðingu, að fara vel með opinbert fé er dyggð og við viljum gera hagstæð innkaup og spara. En engu að síður líða hér margir skort og kjör margra öryrkja og aldraðra eru erfið. Þegar allar ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna eru vegnar og metnar á grunni hagræðingar og arðsemikröfu til skemmri tíma er kannski hætta á að aldraðir og öryrkjar búi við stöðuga ógn um kjör þeirra dragist aftur úr. Þessir hópar eiga sér þó talsmenn og þegar kjör þeirra eru skert eru jafnan einhverjir sem kveða sér hljóðs á Alþingi og mótmæla.

Ætli skýringin á skertum framlögum ríkisins til kirkjugarða felist í því að það er engin augljós arðsemi í því að leggja metnað í umhirðu kirkjugarða? Hinir látnu mótmæla ekki og eiga sér fáa talsmenn, engin hagsmunasamtök og enga fulltrúa á Alþingi.

Með þessa hugsun í kolli yfirgef ég Fossvogskirkjugarð, enn eitt skiptið, sest afturí hjá mömmu og pabba, við hlið uppkominna systkina minna. Lífið er dásamlegt!

Gleðileg jól.

img_8654.jpeg

0 comments on “Er hægt að meta gildismat samfélags út frá ástandi kirkjugarða þess?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: