Hverjar voru tekjur og gjöld Ofanflóðasjóðs 1997-2019?

Þegar ég hugsa til stjórnsýslunnar okkar þá finnst mér mikilvægt að hún sé gagnsæ og skilvirk og að tryggt sé að skattfé sé ráðstafað skynsamlega. Þetta með skynsemina er auðvitað afstætt; það sem einum finnst skynsamlegt finnst öðrum arfavitlaust. En að minnsta kosti hljóta allir að vera sammála um að ef skattfé er safnað í einhverjum sérstökum tilgangi þá eigi það fé að nýtast til þess hins sama. Slík skattheimta er oft sett á til að safna fé til þjóðþrifaverkefna sem almenn sátt ríkir um. Þegar þannig er í pottinn búið hlýtur það að vera sjálfsögð krafa almennings að til lengri tíma sé skattféð einmitt notað í þessum tilgangi, og ekki öðrum. Þetta er svo augljóst að mér finnst varla þörf á að nefna það. Mér finnst þetta snúast um heiðarleika, gott siðferði, að standa við það sem maður lofar.

ethics

Nú víkur sögu að opinberum sjóði sem heitir Ofanflóðasjóður. Undanfarna mánuði hefur verið talað töluvert um þennan sjóð. Ég minnist umræðu fyrir skemmstu þar sem fram kom að miðað við framkvæmdahraða síðustu ára muni þessum sjóði ekki takast hið lögbundna ætlunarverk sitt fyrr en um miðja öldina. Ekki mun draga úr umræðu um Ofanflóðasjóð eftir að stór snjóflóð féllu á Flateyri og í Súgandafirði 15. janúar 2020, um 25 árum eftir að hin skelfilegu og mannskæðu snjóflóð féllu á Flateyri og í Súðavík.

flodOfanflóðasjóður tók einmitt til starfa 1997 með gildistöku sérstakra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þá var stefnt á að gera verulegt átak í að verja byggðir landsins fyrir snjóflóðum. Áætlun um þetta var sett fram, hana skyldi fjármagna með framlögum úr Ofanflóðasjóði og henni skyldi ljúka árið 2010. Þetta var metnaðarfull áætlun, um hana ríkti almenn samstaða og ég hygg að almenningur hafi verið sáttur við þá skattheimtu sem sett var á til að afla tekna til þessara framkvæmda. Tekjur Ofanflóðasjóðs eru sumsé skattur sem er innheimtur af fasteignaeigendum sem sérstakt 0,3% gjald á brunatryggingar húseigna. Því miður hafa þessi áform alls ekki gengið eftir. Fram kom í hádegisfréttum RÚV þann 16. janúar  að útgjöld Ofanflóðasjóðs í fyrra voru miklu lægri en tekjur hans.

Þetta vakti forvitni mína um tekjur þessa sjóðs og útgjöld hans á árabilinu 1997 – 2019. Ég hef svo sem ekki fundið upplýsingar um þetta en finna má afar sterkar vísbendingar um að ráðstöfunarfé þessa sjóðs hafi árum saman verið innan við helmingur af tekjum hans. Hér má til dæmis vitna í frétt frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga á heimasíðu sambandsins 28. nóvember 2017.

Ábyrgð á öflun og ráðstöfun tekna Ofanfljóðasjóðs hlýtur að liggja hjá stjórnmálamönnum sem fara með landsstjórnina. Þeir hafa verið býsna margir frá árinu 1997. Ég bíð með að draga frekari ályktanir uns fyrir liggja frekari upplýsingar. Getur einhver bent á töflu eða mynd sem sýnir árlegar tekjur og gjöld Ofanflóðasjóðs frá árinu 1997, og uppsafnaða fjárhagsstöðu sjóðsins?

Framhald af pistli, tekið saman 19. janúar.

Nokkrar fréttir um þetta mál á tímabilinu 16.-19. janúar hjálpa raunar til við að skýra hvernig í pottinn er búið.

  • Sighvatur Björgvinsson skrifar grein um sama efni á Kjarnanum. Þar koma fram frekari upplýsingar sem svara að hluta spurningunni sem sett er fram í fyrirsögninni hér að ofan.
  • Frétt á RÚV þar sem m.a. er vitnað í viðtal við Halldór Halldórsson stjórnarmann í Ofanflóðasjóði.
  • Frétt á RÚV sem byggir á umræðu í Silfrinu 19. jan.
  • Frétt á visir.is sem byggir á viðtali við samgöngu- og sveitastjórnaráðherra 19. jan.

Þessar fréttir – ekki síst viðtalið við ráðherrann 19. janúar – sýna í hnotkurn hvernig þetta mál er vaxið. Skattheimtan hefur verið í gildi frá 1997 og milljarðar króna hafa verið rukkaðir af landsmönnum í Ofanflóðasjóð, til að styrkja varnir í byggðum landsins gegn snjóflóðum og skriðuföllum. En fjárveitingavald Alþingis ákveður, ár frá ári, að verja aðeins broti af þessu skattfé til þessara varna. Í viðtalinu segir ráðherrann orðrétt:

„Það eru komin inn sérstök lög um opinber fjármál þar sem búið er að taka allar markaðar tekjur af, þar á meðal þessar, sem þýðir bara í raun og veru að allar tekjur sem ekki eru markaðar þær renna bara í ríkissjóð og það er síðan fjárveitingavald Alþingis sem ákveður hvað útgjöld eru. Það finnst mér vera óheppilegt.“

Staðreyndin er því sú að með lagasetningu hafa húseigendur verið skattlagðir sérstaklega til að fjármagna varnir gegn snjóflóðum. En Alþingi ákveður að nota bara þessa eyrnamerktu peninga í eitthvað allt annað. Ráðherrann velur hér orðið “óheppilegt” til að lýsa þessum gjörningi. Er það nógu sterkt að orði kveðið hjá ráðherranum? Verður það þá “óheppilegt” ef mannslíf tapast á komandi árum vegna þess að áætluninni frá 1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hefur ekki verið fylgt eftir?

Ég kýs að enda þennan pistil þar sem ég hóf hann. Það sem hér liggur fyrir ber því miður vitni um skort á heiðarleika, ámælisvert siðferði, og að standa alls ekki við það sem maður lofar.

 

0 comments on “Hverjar voru tekjur og gjöld Ofanflóðasjóðs 1997-2019?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: