Ég sat í heita pottinum við sundlaug í fallegri sveit við sjávarsíðuna á landsbyggðinni. Það var blankalogn og sól skein í heiði og potturinn var stappfullur af fólki. Ekki fjarri mér voru tvær eða þrjá fjölskyldur, foreldrarnir trúlega á fertugsaldri með börn sín á barnaskólaaldri. Þetta var glaðvær hópur og skrafhreifinn. Sessunautur minn í pottinum hallaði sér að mér og hvíslaði, “þetta er nú fólkið sem var að erfa fiskinn í sjónum.”
Ég áttaði mig á því að foreldrarnir í þessum hópi höfðu nýverið erft afnotarétt á gríðarlega stórum kvóta í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þessir ungu foreldrar höfðu kannski ríkari ástæðu en aðrir til að gleðjast í áhyggjuleysinu. Þau höfðu sumsé nýverið fengið í fyrirframgreiddan arf afnot af þúsundum tonna af fiski sem syndir í sjónum við strendur Íslands, og mun synda þar um ókomin ár. Arfurinn tryggir þeim milljarða á milljarða ofan af krónum á hverju ári í arð, án fyrirhafnar, fyrir það eitt að vera börn foreldra sinna. Að óbreyttu munu börnin þeirra erfa sama afnotarétt einn góðan veðurdag og þannig mun sagan endurtaka sig.
Ég hugsaði með mér að hér er eitthvað mikið að, hér er stórkostlega rangt gefið í okkar samfélagi og þessu ranglæti verðum við að vinda ofan af, annars er allur samfélagssáttmáli okkar í uppnámi. Fyrsta skrefið er að lögfesta stjórnarskránna sem þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Sjálft kvótakerfið og fræðilegar rannsóknir á fiskistofnum til að tryggja skynsamlega nýtingu auðlinda okkar, er allt annar handleggur.
Ég rifja upp Sjómannavísu kvótakóngsins, sem ég hnoðaði saman árið 2001 og kom út á fyrstu hljómplötu South River Band ári síðar. Það hefur víst ekkert breyst á þessum hartnær 20 árum?
Sjómannavísa kvótakóngsins
Létt er mín lund, hratt flýgur stund, og gefur mér gull í mund
ég á Landcruiser flúnkunýjan
mig langaði bara í’ann.
Himneskt mitt hús, við lífið er dús, og laus við allt svekk og blús,
því djúpt í sjónum á ég fiska fjöld
fyrir heila öld.
Almúginn er, sárreiður mér, hann skilur ei kerfið hér.
Það var afi sem veldið reisti
af óskiljanlegri hreysti
Að sígildum sið, pabbi tók við og sótti á gjöful mið
og djúpt í sjónum á ég fiska fjöld
fyrir heila öld.
Ég starfað hef við ættarveldið áralanga hríð
aldrei lagt að þörfu verki hönd.
Ég nenni ekki að streða og púla, í stressi ár og síð
enda vinna hjá mér vaskir menn
þeir eru að veiða upp í kvótann enn.
Af seðlum á sand, í Hreppunum land, og eignir og bréf í bland,
þreyi sólríka vetra á Spáni
að sumrin loks komi og hláni.
Ég þekki ei þurrð, kann ekki burð, mér opin er sérhver hurð
því djúpt í sjónum á ég fiska fjöld
fyrir heila öld.
Hvað gerir hin íslenska þjóð þegar megin tekjulind hennar er tekin af ráðherraveldi sem framlenging af danska konungsveldinu og færð til útgerðarstórveldanna sem endar sem erfðagóss inn í framtíðina? Er þetta klók ráðstöfun fyrir þjóðina? Hvað myndi gerast ef aflinn yrði settur og seldur á markaði hæstbjóðanda? Hér er að myndast þjóðfélagsástand sem kalla mætti Sturlungaöld hin síðari eða 2.0 á nútímamáli. Þetta gerist þegar undirsátar æðra valds berjast um hylli konungs í von um aðkomu í innsta hring áhrifa þar sem Alþingi er í aðstöðu til milligöngu. Tilgangurinn er væntanlega að byggja upp atvinnulífið í þorpum nálægt miðunum. Á sama tíma eru komin ný drög að stjórnarskrá sem herfur verið í salti síðan 2012. Þessi drög eru best til þess fallin að forða nýrri Surlungaöld með lýðræðislegri dreifingu valds og tekna meðal Íslendinga. Til þess er Nýja Stjórnarskráin best til fallin að forða skekkju í þjóðfélagsþróun Íslendinga enda er þjóðin stjórnarskrárgjafinn um grunn vinnureglur sem eru aldrei sjálfskipaðar af Alþingi.
LikeLike