„Þú rótar upp rósunum“

Skiptir máli hver á þetta og hitt? Það er sjálfsagt álitamál. Ætli það skipti ekki mestu máli að fólk hafi áhuga á því sem það er að fást við? Sá sem veitir þjónustu eða framleiðir vöru leggur væntanlega alúð og metnað í þessa starfsemi, og viðskiptavinurinn er frjáls af því að beina viðskiptum sínum þangað, eða eitthvað annað – ef hann er ekki sáttur. Það er varla neitt athugavert við þetta samspil, og sá sem stendur sig vel í viðskiptum á vitaskuld að njóta arðs af sínum góða rekstri. 

Þetta er lögmál hins frjálsa markaðar, en hvað ef viðskiptavinurinn hefur ekki í önnur hús að venda? Viljum við að virkjanir Landsvirkjunar séu í eigu einkaaðila? Hvað með raflínur Landsnets? Hvað með vegakerfið? Hvar drögum við línuna?

Af hverju er ég að velta vöngum yfir þessu, og hvernig tengist þessi pæling fyrirsögn þessarar bloggfærslu? Jú, sala á stórum hluta fjarskiptakerfisins vekur hjá mér spurningar um þessa línu. Það má sjálfsagt einu gilda hvort bifreiðaumboð, matvælaverslun, stoðtækjaframleiðandi eða verktakafyrirtæki er í eigu íslenskra eða erlendra auðmanna. En ég fæ ekki varist þeirri hugsun að sumt eigi alls ekki að vera í eigu auðmanna, og skiptir þá engu hvort þeir eru íslenskir eða erlendir. Ef auðmenn komast yfir mikilvæga innviði á Íslandi þá gengur þeim varla annað til en að græða á þeim peninga. Þeir eru þá í einokunaraðstöðu, þeir geta stýrt uppbyggingu og viðhaldi þessara innviða eftir eigin geðþótta og væntanlega geta þeir haft töluverð áhrif á þróun gjaldskráa.

Hversu trúverðugt er að erlendir auðmenn vilji vera einhverskonar “hagsbætarar” á Íslandi, þeir hafi mikinn metnað um uppbyggingu fjarskiptakerfis í hinum dreifðu byggðum og ætli alls ekki selja það öðrum útlendingum? Hér er ég einmitt kominn að titli þessarar bloggfærslu. Steinunn Sigurðardóttir orti nefnilega ljóð sem hún kallaði Hagsbætirinn. Í upphafi þessa ljóðs segir: “Þú rótar upp rósunum, í mína þágu.”

(Þeir sem vilja geta hlustað á Þóru Einarsdóttur og Caput hópinn flytja lag Hauks Tómassonar við þetta ljóð Steinunnar á Spotify)

0 comments on “„Þú rótar upp rósunum“

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: