Yfirmaður minn – vitvélin?

Gervigreind hefur sífellt meiri áhrif á líf okkar, bæði það sem við fáumst við í vinnutíma og í frítíma. Þegar rætt er um 4. iðnbyltinguna og áhrif hennar er því stundum haldið fram að rútínustörf muni færast yfir á vélar. Sum störf sem sinnt er af mönnum muni því hverfa, einkum og sér í lagi störf sem einkennast af kerfisbundnum og endurteknum aðgerðum. Þessi þróun hefur verið til umræðu um árabil og sýnt þykir við þurfum að búa okkur undir miklar breytingar á komandi árum.

Lengi hefur verið rætt og ritað um þessa þróun. Norræna ráðherranefndin stóð fyrir yfirgripsmikilli rannsókn undir yfirskriftinni “Framtíð vinnu á norðurlöndunum” og lokaskýrslan kom út 2021[1]. Þar var sjónum beint að stafrænu byltingunni og breyttri samsetningu íbúanna og hvaða áhrif þetta hefði á vinnumarkaði norðurlandanna fimm. Einnig má nefna breska skýrslu frá 2015[2] þar sem því haldið fram að á næstu 10 árum myndi gerfigreind ryðja sér til rúms í atvinnulífinu og hrista ærlega upp í öllu sem tengdist stjórnun. Sér í lagi myndu tölvur taka yfir að samræma tímaskipulag, útdeilingu aðfanga og skýrslugerð. Í febrúar 2019 kom út skýrsla forsætisráðuneytisins[3] undir yfirskriftinni “Ísland og fjórða iðnbyltingin.” Þar má lesa að þau störf muni hverfa þar sem upplýsingar eru aðgengilegar og störfin byggja á síendurtekinni úrvinnslu þessara upplýsinga. Þar muni sjálfvirknin taka við af mannshöndinni. MPM námið við HR hefur staðið fyrir málstefnum um þessa þróun og áhrif hennar á verkefnastjórnun; meðal annars þann 15. apríl 2021 og upptaka frá málstefnunni er aðgengileg á vef HR[4]

Fyrir skemmstu hlustaði ég á hlaðvarp frá BBC[5] þar sem umfjöllunarefnið var hvort tölvur og gerfigreind væru að taka við af hefðbundum stjórnendum í fyrirtækjum. Þróunin er nefnilega alls ekki bundin við rútínustörf við framleiðslu eða veitingu þjónustu, hún á ekki síður við um rútínustörf sem tengjast stjórnun (administration). Þróunin er ör og sumpart stjórna tölvur nú þegar ýmsu í lífi okkar og við látum okkur það vel líka. Til dæmis látum við tölvur stýra okkur þegar við keyrum um með aðstoð GPS leiðsögukerfis. Þegar við verslum við stórar vefverslanir er aðfangakeðjan að langmestu leyti sjálfvirk og samræmd af hugbúnaði – allt frá því að við pöntum uns við fáum vöruna afhenta nokkrum dögum síðar. Í hlaðvarpinu var sagt frá fyrirtæki sem tekur að sér að gera rannsóknir. Hver rannsókn er í eðli sínu verkefni og því var lýst hvernig fyrirtækið hefur sjálfvirknivætt alla áfanga slíks verkefnis. Tölvur leita að sérfræðingum sem gefa sig út í að taka þátt í slíku á verkefnagrunni. Tölvurnar ráða þá til verkefnisins, samræma störf allra sérfræðinganna og halda utan um rannsóknina allt þar til lokaniðurstöðu er skilað. Frá sjónarhóli sérfræðings í verkefnastjórnun er þessi sviðsmynd býsna framúrstefnuleg og þau verkefni sem stjórnað er með þessum hætti eru ekki hefðbundin verkefni, sem einkennast oftar en ekki af tímapressu, mikilli óvissu og snertiflötum margvíslegra hagsmunaaðila sem hafa ólíka hagsmuni.

En hvar eru mörkin dregin og hve langt mun þessi þróun ganga á komandi árum? Viðmælendur í þessu hlaðvarpi BBC drógu mörkin við viðkvæm og flókin samskipti stjórnanda og undimanns, þar sem öllu skiptir að geta metið ólík sjónarmið, skynjað tilfinningar, lesið milli línanna og ályktað og brugðist við út frá því sem er sagt, en ekki síður því sem er ósagt og þarf að skynja. Gervigreindin á líka langt í land með að koma að notum í sjálfu stjórnarherberginu því tölvur ráða illa við að spá í framtíðina, velta vöngum yfir ólíkum sviðsmyndum, móta stefnu og leggja niður skynsamlegustu leiðirnar til að raungera þá stefnu með því að skilgreina og framkvæma verkefni. Þetta kemur heim og saman við rannsóknir vísindamanna við HR á áhrifum gerfigreindar á verkefnastjórnun[6]. Þar hefur verið ályktað að viðkvæm samskipti verði áfram á höndum manna þó sum svið klassískrar verkefnastjórnunar muni örugglega færast meira og meira yfir til tölva, til að mynda áhættugreiningar, fjárhagslegir útreikningar og útreikningar sem lúta að verktíma. 

Við erum forvitin um framtíðina í HR og nú um stundir erum við áhugasöm um það hvernig nýta má gervigreind til að ná betri árangri í verkefnastjórnun. Við erum meðal annars að skoða – ásamt rannsóknarhópum við nokkra evrópska háskóla – hvernig nota megi spjallmenni (chatbots) í þjálfun og kennslu í verkefnastjórnun[7] og um nokkura ára skeið höfum prófað okkur áfram með notkun hermilíkana í þeim sama tilgangi. En svo vikið sé að titli þessa pistils þá gerist það varla í náinni framtíð að næsti yfirmaður okkar verði vél með gervigreind, eða einhvers konar vitvél!


Pistillinn birtist á Kjarnanum 2. desember 2022.

[1] https://www.norden.org/en/publication/future-work-nordic-countries

[2] Kolbjørnsrud, V., Amico, R., & Thomas, R. J. (2016). The promise of artificial intelligence. Accenture: Dublin, Ireland.

[3]http://www.google.com/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwiKq7zSz9P7AhXwQ0EAHUNNBu4QFnoECBMQAQ&url=https%3A%2F%2Fwww.stjornarradid.is%2Flibrary%2F04-Raduneytin%2FForsAetisraduneytid%2FFramtidarnefnd%2FFjorda-idnbyltingin-skyrsla.pdf&usg=AOvVaw3DB7W4GLnM3ooBG-fvA6CF

[4] www.ru.is/mpm/um-okkur/frettir-pistlar-og-vidburdir/streymi-af-_framtid-vinnu-og-verkefnastjornun_

[5] www.bbc.co.uk/programmes/w3ct39tw

[6] Fridgeirsson, T. V., Ingason, H. T., Jonasson, H. I., & Jonsdottir, H. (2021). An authoritative study on the near future effect of artificial intelligence on project management knowledge areas. Sustainability13(4), 2345.

[7] https://www.oulu.fi/en/projects/personalized-project-management-learning-chatbots

0 comments on “Yfirmaður minn – vitvélin?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: