Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?

Þessi yfirskrift fundaherferðar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi haustið 2023 hefur vakið mig til umhugsunar.

Ég veit vel að sjávarútvegur var lengi langmikilvægasta uppistaðan í íslensku atvinnulífi og forsenda fyrir uppbyggingu innviða okkar. Ótrúlega snögg umskipti okkar á 20. öldinni úr fátækt yfir í ríkidæmi má þakka því að íslensk þjóð átti náttúruauðlindir á borð við fiskinn í sjónum og orku í fallvötnum og jarðvarma. Flestir Íslendingar geta svarað spurningunni í ljósi þessara staðreynda, sem eru öllum kunnar.

Ég er tíður gestur í litlu sjávarplássi á landsbygginni. Þar hverfist allt um sjávarútveg. Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur og þar finnur maður fyrir samstöðu og samfallandi hagsmunum. Það er táknrænt fyrir þessa samstöðu að í reiptoginu taka útgerðarmenn, skipstjórar, hásetar og fiskvinnslufólk höndum saman í græskulausri keppni, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar. Byggðarlagið á allt undir því að fiskurinn sé veiddur og honum skipað upp í plássinu. Að hluta til er fiskurinn unninn á staðnum en allar afurðir hafsins eru á endanum fluttar á markað og íbúar njóta góðs af og lífskjör eru með ágætum. Svona viljum við hafa þetta. Ég reikna með að íbúar í þessu sjávarplássi ættu ekki í vandræðum með að svara spurningunni.

Svo minnist ég þess að ég var svo lánsamur að vera í sveit í litlu sjávarplássi á norðausturlandi þegar ég var gutti. Fjórir skuttogara lögðu þar upp og það var líf og fjör í plássinu. Sjávarútvegurinn var uppspretta lífsafkomu allra sem þar bjuggu og fólk hafði það mjög gott. Íbúarnir hefðu ekki átt í vandræðum með að svara spurningunni á þessum tíma. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Á þessum stað sést aldrei fiskiskip núorðið og plássið er skuggi af því sem áður var. Það kemst helst í fréttirnar útaf fnyk sem oft legst yfir plássið og tengist víst fiskverkun þar sem pottur virðist brotinn. Ég veit ekki hvernig íbúar þessa sjávarpláss myndu svara spurningunni í dag.

Það væri virkilega gaman að heyra hvernig æðstu menn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi myndu svara spurningunni. Þar eru meðal annarra fulltrúar Ramma, Skinneyjar-Þinganes, Síldarvinnslunnar, Samherja og Brims. Að vísu eru þar ekki fulltrúar Vísis úr Grindavík en fyrrverandi eigendur Vísis, fimm systkini úr Grindavík, ættu ekki erfitt með að svara spurningunni; þau seldu nefnilega fyrirtækið fyrir skemmstu og fengu hvert um sig marga milljarða í vasann. Eigendur Samherja, börn stofnenda fyrirtækisins, eiga væntanlega auðvelt með að svara spurningunni, nú þegar þessi uppkomnu börn fá milljarða króna í arðgreiðslur, án nokkurrar fyrirhafnar. Á undanförnum árum höfum við horft upp á hvernig yfirgengilegur gróði úr rekstri sjávarútvegsfyrirtækja rennur í allskonar bisness hér á landi og erlendis, sem á ekkert skylt við sjávarútveg. Fasteignafélög, tryggingastarfsemi, millilandaflutningar, smásala, olíuviðskipti og fjölmiðlarekstur eru nokkur dæmi. Af hverju rann ekki amk. hluti þessa gróða til íslenskrar þjóðar, til að greiða fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða, til að styðja við bráðnauðsynlegar endurbætur á heilbrigðiskerfi okkar og menntakerfi? Spyr sá sem ekki veit.

Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig? Það er ekki sama hver er spurður. Það er nefnilega ekki sama Jón og séra Jón.

1 comment on “Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?

  1. Sigursveinn Magnússon's avatar
    Sigursveinn Magnússon

    Takk fyrir pistilinn Helgi. Þú setur þetta í alveg rétt samhengi. Maður veltir fyrir sér hvort auglýsingastofan sem réði framsetningu fundarefnisins hafi hugsað málið til enda.

    Like

Leave a comment