
Söngleikurinn Galdur gerist á Íslandi seint á 17. öld, á erfiðum tímum í íslensku samfélagi. Öfund, illska og fáfræði eru aflvakar atburðarásar þar sem ung stúlka er sökuð um galdra.
Í söngleiknum er sögð er einföld saga sem hverfist um átök góðs og ills. Söguhetjurnar eru Sigrún, 16 ára bóndadóttir úr Borgarfirði, og Sturla, ungur sýslumaður úr Húnavatnssýslu sem leggur allt í sölurnar til að sýna fram á sakleysi hennar. Þar takast á stálin stinn því valdamikil öfl vilja dæma Sigrúnu á bálið. Aflvakar hins illa í verkinu eru öfund og græðgi. Aflvakar hins góða eru heiðarleiki og traust. Í þeim hvirfilvindi sem myndast þegar þessi öfl takast á er almenningsálitið býsna viðkvæmt og auðvelt að hafa áhrif á það. Fyrsta fórnarlambið í baráttu milli hins illa og góða er einmitt sannleikurinn. Hér er um að ræða gamalkunnugt stef. Almenningsálitið er fljótt að breytast. Hin illu öfl kunna ráð til að móta og nýta sér almenningsálitið, en spurningin er hvort hið illa sigrar eða hvort hið góða nær yfirhöndinni að lokum?
Í Galdri er fjölbreytt tónlist, kórlög, einsöngslög með og án kórs og einnig leikin lög. Áhersla á sungna tónlist er mikil. Höfundur er Helgi Þór Ingason en auk hans standa að verkefninu þjóðlagahljómsveitin Kólga og Hilmar Örn Agnarsson organisti og kórstjóri, og Söngfjelagið – blandaður kór sem starfar undir hans stjórn. Á tímabilinu 2020 – 2021 unnu tugir tónlistarmanna að því að koma Galdri á fjalirnar. Þetta var á því tímabili þegar heimsfaraldurinn Covid 19 gekk yfir, sem setti svo sannarlega strik í reikninginn varðandi samkomuhald. Niðurstaða varð því sú að ekkert varð að uppsetningunni, þrátt fyrir nokkrar atlögur. Hér verður gerð grein fyrir þeim einstaklingum sem lögðu á sig ómælda vinnu og erfiði, auk Hilmars Arnar, Kólgu og fjölda áhugasamra, þolinmóðra og ósérhlífinna félaga Söngfjelagsins.

Einar Clausen æfði hlutverk Sturlu, en hann nam við Söngskólann í Reykjavík og hefur starfað við tónlist frá árinu 1990 og sem söngvari frá 2006. Einar hefur sungið með fjölda kóra, kirkjukóra og kammeshópa og hefur einnig komið fram sem einsöngvari með kórum og hljómsveitum.
Kamilla Alfreðsdóttir æfði hlutverk Sigrúnar. Kamilla nam leiklist og söng við New York Film Academy í Bandaríkjunum og hefur starfað sem söngvari og leikari í New York. Kamilla nam einnig hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
Ívar Helgason æfði hlutverk Bergs, föður Sigrúnar. Ívar er reyndur söngvari sem býr og starfar á Akureyri. Hann nam við Söngskólann í Reykjavík og við Universität für Musik und darstellende Kunst Wien og hann hefur sungið einsöngshlutverk í söngleikjum við Þjóðleikhúsið og Leikfélag Akureyrar.
Guðjón V. Stefánsson æfði hlutverk Illuga, en Guðjón hefur stundað nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskóla FÍH.

Önnur hlutverk áttu að vera í höndum liðsmanna Söngfélagsins en þar er valinn maður í hverju rúmi. Í hópi kórfélaga sem fara með hlutverk má nefna Helgu Kristínu Haraldsdóttur, Þorstein Geirharðsson, Zóphonías O. Jónsson og Jakob Fal Garðarsson.
Sviðsetning – eða svonefnd kóreografía – er í höndum Sibylle Köll. Hún stundaði ballett- og tónlistarnám frá barnsaldri í heimalandi sínu, Austurríki. Dansnám stundaði hún við Hogeschool voor de Kunstern Arnhem í Hollandi. Einnig nam hún söng við Royal Conservatory The Hague í Hollandi og Söngskólann í Reykjavík, hvaðan hún lauk bæði einsöngvaraprófi og söngkennaraprófi. Hún hefur komið að mörgum sýningum hérlendis sem danshöfundur, leikstjóri og kóreograf.
Útsetningar fyrir kór eru í höndum Viktors Ritovs frá Lettlandi. Handritsráðgjafi er Ólafur Egill Egilsson. Tónlistarráðgjafar eru meðal annarra þeir Matthías Stefánsson og Hilmar Örn Agnarsson. Iveta Licha í Söngfjelaginu var ómetanleg hjálparhella við æfingar kórsins. Sverrir Páll Sverrisson var verkefnisstjóri og samræmdi verkefnið á tímavili. Margir hafa veitt höfundi góð ráð á þeim 15 árum sem verkið hefur verið í smíðum, nefna má Þór Breiðfjörð, Daníel Þorsteinsson, Árna Heiðar Karlsson, Nínu Dögg Filippusdóttur, Gísla Örn Garðarsson, Hörpu Arnardóttur, Einar Clausen, Hauk Inga Jónasson og Þóreyju Sigþórsdóttur.

Söngfjelagið er blandaður kór, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, stofnaður 2011. Kórinn er löngu orðinn kunnur í tónlistarlífi höfuðborgarinnar en fastir liðir á verkefnaskrá hans eru árlegir aðventutónleikar, þar sem ávallt er frumflutt nýtt verk samið sérstaklega fyrir kórinn, og sumarfagnaður í Iðnó á síðasta vetrardag. Söngfjelagið flytur fjölbreytta tónlist, jazz, klezmer, þjóðlög og hvaðeina sem andinn blæs kórnum í brjóst. Einu er þó ávallt hægt að ganga að sem vísu; sönggleðin er í fyrirrúmi. Kórinn telur um 60 manns, þar sem valinn maður er í hverju rúmi, allt kórvant og/eða tónlistarmenntað fólk. Söngfjelagið varð til vegna áhuga hópsins á að flytja vandaða kórtónlist undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar.

Hilmar Örn Agnarsson – organisti og kórstjóri – er ásamt eiginkonu sinni Björgu Þórhallsdóttur óperusöngkonu á myndinni. Hilmar er meðal reyndustu og fremstu kórstjóra landsins. Hann hóf tónlistarnám sitt við Tónskóla Þjóðkirkjunnar en lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983. Að útskrift lokinni starfaði hann sem organisti og kórstjóri í Þorlákshöfn og Strandarkirkju 1983-1985. Þaðan hélt hann til frekara náms í orgelleik og kórstjórn í Þýskalandi og stundaði nám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Hamborg frá 1985-1991. Hilmar var ráðinn organisti við Skálholtsdómkirkju 1991 og stjórnaði þar öflugu tónlistarlífi til loka árs 2008. Hann tók við stöðu dómorganista í Kristskirkju, Landakoti í Reykjavík, í byrjun árs 2009 og starfaði þar fram á mitt ár 2012. Hann er stjórnandi Kammerkórs Suðurlands, Vox populi og Söngfjelagsins. Hann hefur undanfarin ár starfað sem organisti og kórstjóri við Grafarvogskirkju.

Þjóðlagahljómsveitin Kólga var stofnuð haustið 2014. Hana skipa þau Kristín Sigurjónsdóttir á fiðlu, Magni Friðrik Gunnarsson á gítar og mandolín, Jón Kjartan Ingólfsson á kontrabassa og Helgi Þór Ingason á harmoniku. Aðalsmerki Kólgu er þó söngur. Allir hafa reynslu af kórsöng og skiptast á að leiða sönginn, auk þess sem töluvert er lagt upp úr raddsetningum. Kólga leikur þjóðlagaskotna tónlist sem í má finna áhrif frá Írlandi, Austur Evrópu, Skandinavíu og Bandaríkjunum. Á efnisskrá er tónlist úr ýmsum áttum, en um helmingur hennar er frumsaminn. Allir textar eru á íslensku og langflestir eru þeir frumsamdir og úr smiðju sveitarinnar. Hljómsveitin Kólga starfar af ástríðu og áhuga á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi. Sveitin æfir að jafnaði vikulega en nýtir þau tækifæri sem gefast til að koma fram opinberlega. Í flutningi Galdurs fær Kólga frábæran liðsauka því Matthías Stefánsson mun leika með á mandolín og fleiri hljóðfæri.

Viktors Ritovs starfar sem píanisti og útsetjari við útvarpshljómsveitina í Riga í Lettlandi. Hann leiðir Riga Jazz Quartet og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir píanóleik. Meðal annars var hann tilnefndur til “Grand Music Award” – virtustu tónlistarverðlauna Lettlands 2016 fyrir “Outstanding Ensamble Work.” Viktors nam píanóleik við tónlistarskóla í Riga, hann útskrifaðist frá Lettnesku tónlistarakademíunni en hefur einnig numið við tónlistarskóla í Hollandi og í Finnlandi. Hann hefur leikið með fjöldamörgum listamönnum, m.a. China, Moses, Roberta Gambarini, Patina, Randy Brecker og fleirum.

Helgi Þór Ingason er véla- og iðnaðarverkfræðingur, með PhD gráðu frá Norska Tækniháskólanum í Þrándheimi. Helgi Þór er prófessor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumaður MPM náms, meistaranáms í verkefnastjórnun.
Helgi Þór nam píanóleik hjá Jóni Stefánssyni og í Tónlistarskóla Sigursveins frá 9 ára og síðar nám í Jassdeild Tónlistarskóla FÍH um þriggja ára skeið frá 1982. Hann stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík veturinn 1989-1990 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Helgi Þór starfaði með Kór Langholtskirkju á tímabilinu 1989 – 2000. Einnig starfaði Helgi Þór með Óperukórnum og um skeið með Módettukór Hallgrímskirkju. Helgi Þór hefur starfað með nokkrum hljómsveitum, nefna má hljómsveitina Jassgauka en lengst af starfaði hann með South River Band sem hefur gefið út sex hljómplötur frá 2002. Geisladiskurinn Gamla hverfið, með tónlist og textum Helga Þórs, kom út 2013. Helgi Þór starfar einnig með þjóðlagahljómsveitinni Kólgu.