Galdur

Söngleikurinn Galdur gerist á Íslandi seint á 17. öld, á erfiðum tímum í íslensku samfélagi. Öfund, illska og fáfræði eru aflvakar atburðarásar þar sem ung stúlka er sökuð um galdra.

Í söngleiknum er sögð er einföld saga sem hverfist um átök góðs og ills. Söguhetjurnar eru Sigrún, 16 ára bóndadóttir úr Borgarfirði, og Sturla, ungur sýslumaður úr Húnavatnssýslu sem leggur allt í sölurnar til að sýna fram á sakleysi hennar. Þar takast á stálin stinn því valdamikil öfl vilja dæma Sigrúnu á bálið. Aflvakar hins illa í verkinu eru öfund og græðgi. Aflvakar hins góða eru heiðarleiki og traust. Í þeim hvirfilvindi sem myndast þegar þessi öfl takast á er almenningsálitið býsna viðkvæmt og auðvelt að hafa áhrif á það. Fyrsta fórnarlambið í baráttu milli hins illa og góða er einmitt sannleikurinn. Hér er um að ræða gamalkunnugt stef. Almenningsálitið er fljótt að breytast. Hin illu öfl kunna ráð til að móta og nýta sér almenningsálitið, en spurningin er hvort hið illa sigrar eða hvort hið góða nær yfirhöndinni að lokum?

Í Galdri er fjölbreytt tónlist, kórlög, einsöngslög með og án kórs og einnig leikin lög. Áhersla á sungna tónlist er mikil. Höfundur er Helgi Þór Ingason. Flestar kórútsetningar voru í höndum Viktors Ritovs.

Útsetningar fyrir kór eru í höndum Viktors Ritovs frá Lettlandi. Handritsráðgjafi er Ólafur Egill Egilsson. Tónlistarráðgjafar eru meðal annarra þeir Matthías Stefánsson og Hilmar Örn Agnarsson. Margir hafa annars veitt höfundi góð ráð á þeim árum sem verkið hefur verið í smíðum, nefna má Sybille Köll, Þór Breiðfjörð, Daníel Þorsteinsson, Árna Heiðar Karlsson, Nínu Dögg Filippusdóttur, Gísla Örn Garðarsson, Hörpu Arnardóttur, Einar Clausen, Hauk Inga Jónasson og Þóreyju Sigþórsdóttur.

Þess skal getið að á tímabilinu 2020 – 2021 unnu tugir tónlistarmanna að því að koma Galdri á fjalirnar. Þetta var á því tímabili þegar heimsfaraldurinn Covid 19 gekk yfir, sem setti svo sannarlega strik í reikninginn varðandi samkomuhald. Niðurstaða varð því sú að ekkert varð að uppsetningunni, þrátt fyrir nokkrar atlögur. Á þessu tímabili lagði fjöldi einstaklinga á sig ómælda vinnu í þágu verkefnisins. Fyrstan skal þar nefna Hilmar Örn Agnarsson stjórnanda Söngfjelagsins og þann dásamlega kór, ásamt þjóðlagasveitina Kólgu, Sybille Köll og Viktors Ritovs. Framlag alls þessa fólks var ómetanlegt og án þess hefði verkefnið aldrei orðið að veruleika.


Í byrjun árs 2024 veitti Tónlistarsjóður styrk til að koma söngleiknum Galdri fyrir sjónir almennings. Stuðningur sjóðsins skipti miklu og gerði mögulegt að flytja verkið. Vorið 2024 vann hópur tónlistarfólks, hljóðfæraleikara og söngvara, að því að setja Galdur upp í tónleikauppfærslu. Alls 22 söngvarar komu að flutningnum, flestir í kór en nokkrir syngja einnig einsöngshlutverk. Stjórnandi uppsetningar var Iveta Licha.

Einar Clausen fór með hlutverk Sturlu, en hann nam við Söngskólann í Reykjavík og hefur starfað við tónlist frá árinu 1990 og sem söngvari frá 2006. Einar hefur sungið með fjölda kóra, kirkjukóra og kammeshópa og hefur einnig komið fram sem einsöngvari með kórum og hljómsveitum.

Kamilla Alfreðsdóttir söng hlutverk Sigrúnar. Kamilla nam leiklist og söng við New York Film Academy í Bandaríkjunum og hefur starfað sem söngvari og leikari í New York. Kamilla nam einnig hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Guðjón V. Stefánsson fór með hlutverk Illuga, en Guðjón hefur stundað nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskóla FÍH.

Zophonías Oddur Jónsson söng hlutverk Bergs. Zophonías er prófessor í sameindaerfðafræði við HÍ og félagi í Söngfjelaginu í Reykjavík.

Önnur hlutverk voru í höndum kórmeðlima. Helga Kristína Haraldsdóttir söng hlutverk Ástrósar, Þorsteinn Geirharðsson söng hlutverk hirðstjóra konungs, Jónas Örn Helgason söng hlutverk Þorleifs sýslumanns, Ólöf María Ingólfsdóttir söng hlutverk Láru biskupsfrúar og Helgi Þór Ingason fór með hlutverk Bjarna biskups. Þorleifur Hauksson var sögumaður.

Hljóðfæraleikur var í höndum Kjartans Valdimarssonar (píanó), Birgis Bragasonar (kontrabassi), Rósu Jóhannesdóttur (fiðla) og Helga Þórs Ingasonar (harmóníka).

Kórinn var þannig skipaður:

Sópran: Klara Hjálmtýsdóttir, Kamilla Alfreðsdóttir, Sigrún Steingrímsdóttir,  Jónína Guðrún Kristínsdóttir,  Hulda Sverrisdóttir, Rúna Vala Þorgrímsdóttir, Ingibjörg Brynjarsdóttir, Þórdís Sævarsdóttir, Unnur Jónsdóttir.

Alt:  Sigríður Zoëga, Þorgerður Lilja Björnsdóttir, Annamaria Lopa, Ólöf María Ingólfsdóttir

Tenór: Jónas Örn Helgason, Haukur Ingi Jónasson, Hulda Kolbrún Guðjónsdóttir, Einar Clausen

Bassi: Þorsteinn Geirharðsson, Guðjón V Stefánsson,  Gunnar Freyr Stefánsson, Zophonías Oddur Jónsson, Kristófer Kvaran

Iveta Licha kennir við Fjölbraut í Breiðholti með áherslu á ensku og fantasíubókmenntir. Iveta er einnig tónlistakennari með mastersgráðu í tónlistarkennslu frá Matej Bel háskólann í Slóvakíu. Hún er fædd og uppalin í þar, en bjó í Skotlandi og Englandi áður en hún fluttist til Íslands árið 2007. Hún hefur verið viðloðandi kóra og kórastarf alla sína ævi. Iveta hefur unnið með Söngfjelaginu og Kammerkór Suðurlands síðan 2010 og verið þar söngvari, undirleikari og aðstoðarkórstjóri. Hún hefur einnig útsett kórtónlist, nú síðast fyrir Pál á Húsafelli. Í frístundum spilar hún skoska og írska þjóðlagatónlist ásamt fjölbreyttum hóp tónlistarmanna. Hún kveðst taka þátt í verkefninu Galdri svo engan gruni að hún sé í alvörunni norn!

Viktors Ritovs starfar sem píanisti og útsetjari við útvarpshljómsveitina í Riga í Lettlandi. Hann leiðir Riga Jazz Quartet og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir píanóleik. Meðal annars var hann tilnefndur til “Grand Music Award” – virtustu tónlistarverðlauna Lettlands 2016 fyrir “Outstanding Ensamble Work.” Viktors nam píanóleik við tónlistarskóla í Riga, hann útskrifaðist frá Lettnesku tónlistarakademíunni en hefur einnig numið við tónlistarskóla í Hollandi og í Finnlandi. Hann hefur leikið með fjöldamörgum listamönnum, m.a. China, Moses, Roberta Gambarini, Patina, Randy Brecker og fleirum.

Helgi Þór Ingason er véla- og iðnaðarverkfræðingur, með PhD gráðu frá Norska Tækniháskólanum í Þrándheimi. Helgi Þór er prófessor við Háskólann í Reykjavík. Hann nam píanóleik hjá Jóni Stefánssyni og í Tónlistarskóla Sigursveins frá 9 ára og síðar nám í Jassdeild Tónlistarskóla FÍH um þriggja ára skeið frá 1982. Hann stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík veturinn 1989-1990 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Helgi Þór starfaði með Kór Langholtskirkju á tímabilinu 1989 – 2000. Einnig starfaði Helgi Þór með Óperukórnum um skeið og síðar einnig með Módettukór Hallgrímskirkju. Helgi Þór hefur starfað með nokkrum hljómsveitum, nefna má hljómsveitina Jassgauka en lengst af starfaði hann með South River Band sem hefur gefið út sex hljómplötur frá 2002. Geisladiskurinn Gamla hverfið, með tónlist og textum Helga Þórs, kom út 2013. Helgi Þór starfar einnig með þjóðlagahljómsveitinni Kólgu sem gaf út samnefndan geisladisk 2017.

Söngleikurinn Galdur var fluttur sunnudaginn 21. apríl í sal Tónlistarskóla FÍH í Rauðagerði. Nokkrar ljósmyndir fanga stemninguna á þessum fallega og sólríka sunnudagseftirmiðdegi.