Ég er staddur í Andalúsíu í hjólaferð með góðum hópi fólks. Þegar ég nálgast Ronda rifjast upp sögusvið Hemingways í “Hverjum klukkan glymur.” Þarna áttu sér stað skelfilegir atburðir í upphafi spænsku byltingarinnar þegar tókust á svarnir andstæðingar í pólitík.

Ég hugleiði ástand mála og pólítísk átök heima á Fróni. Ég vona að komandi þingkosningar – og aðdragandi þeirra – verði vettvangur uppbyggilegrar umræðu um það sem máli skiptir. Og nú finnst mér að það sé virkileg þörf á breytingum. Sem kjósandi þarf maður jafnan að velja flokk sem kemst næst því að mæta óskum manns.
Nú er sagt að það sé merki um að maður sé með lausa skrúfu ef maður gerir það sama, aftur og aftur, og reiknar með að útkoman verði önnur en síðast. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það megi snúa þessu við? Ef ég stilli nú upp óskalista, er ekki einhver flokkur til í að taka tillit til óska minna? Ég lofa að hafa þennan óskalista hófstilltan og sanngjarnan.
- Að skoðað verði í alvöru að hætta hinni langdregnu tilraun með íslensku krónuna. Ansi mörg íslensk fyrirtæki hafa hætt þátttöku í tilrauninni og gera bara upp í evrum. En íslenski alþýðumaðurinn getur ekki stimplað sig út og eftir situr hann með okurvexti og veldisvöxt í afborgunum lána. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við tökum til í heilbrigðiskerfinu. Ekki vantar viljann og kerfið er stærsti útgjaldaþáttur hins opinbera. Samt eru endalausri biðlistar og sögur heyrast af fólki sem þarf að greiða milljónir ef það er svo óheppið að veikjast af erfiðum sjúkdómi. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við aukum skilvirkni og árangur í menntakerfinu. Þetta er næst stærsti útgjaldaþátturinn. Samt heyrast fréttir af því að ungt fólk geti ekki lengur lesið sér til gagns? Og þurfum við virkilega sjö háskóla í 400 þúsund manna samfélagi? Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við lagfærum umgjörð um það hvernig við veljum, undirbúum og höldum utan um stórar framkvæmdir sem hér eru framundan á komandi árum. Ef við gerum það ekki er öruggt mál að við tökum rangar ákvarðanir um forgangsröðun, og þessi risastóru verkefni munu kosta miklu meira en við höfum reiknað með. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við sýnum að minnsta kosti alvöru viðleitni til að virða þjóðarvilja um nýja stjórnarskrá og göngum frá því máli með mannsæmandi hætti þannig að skapa megi einhverja sátt í samfélaginu. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við náum samkomulagi um að auðlindir íslenskrar þjóðar séu sameign þjóðarinnar, en tilheyri ekki einhverjum fáum útvöldum. Nonni litli fæddist með silfurskeið í munni og milljarða á bankabók og þarf aldrei að vinna handtak – af því að afi hans var svo heppinn að fá þorskvóta fyrir hálfri öld. En Gunna litla þarf að berjast í bökkum og nær ekki að koma sér upp þaki yfir höfuðið, enda var afi hennar nú bara vörubílstjóri. Er þetta sanngjarnt? Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
- Að við hræðumst ekki að standa upp og segja skoðanir okkar. Við höfum ólík viðhorf en við verðum að geta hlustað, til að ávinna okkur rétt til að á okkur sé hlustað. Upp úr alvöru skoðanaskiptum spretta góðar lausnir. Við verðum að geta talað saman. Það hlýtur að vera hægt að gera betur.
Ég vel þann flokk sem hámarkar ánægju mína. Ég vel ekki flokkinn sem lágmarkar óánægjuna. Frekar sit ég hjá.

0 comments on “Óskalisti kjósanda”